Leikskólinn Akrasel fékk nýlega viðurkenningu sem fyrsti UNESCO leikskólinn á Íslandi. Alls eru nú 12 UNESCO skólar hér á landi, leikskólinn Akrasel, fjórir grunnskólar og sjö framhaldsskólar.
Akrasel tók formlega við viðurkenningunni á sérstakri sumarhátíð sem haldin var í blíðskaparveðri 25. maí síðastliðinn. Við sama tækifæri tók leikskólinn á móti sjötta Grænfána Landverndar.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti, mætti á staðinn og hélt ávarp og heilsaði upp á krakkana, starfsfólk og aðra gesti. Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla, hélt einnig ávarp og ítrekaði mikilvægi þeirra gilda og markmiða sem UNESCO skólar vinna eftir, þ.e. alþjóðasamvinna, friður og mannréttindi, starfsemi SÞ og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.