Tveir nýir UNESCO skólar

Tveir skólar bættust nýlega við UNESCO skólanetið hér á landi, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Patreksskóli. Óskum við þeim innilega til hamingju með viðurkenninguna!

UNESCO skólar á Íslandi eru nú alls 12 talsins, einn leikskóli, fjórir grunnskólar og sjö framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í umsóknarferlinu og bíða staðfestingar.

Ásdís Snót Guðmundsdóttir, skólastjóri Patreksskóla, með hópi nemenda skólans og UNESCO skjalið.

 

Skólanet UNESCO skóla er eitt elsta skólanet í heimi en það hefur verið starfrækt frá árinu 1953. Nú eru um 11.500 skólar sem tilheyra netinu og starfa í 182 löndum um allan heim.

Félag Sameinuðu þjóðanna fer fyrir skólanetinu á Íslandi í samstarfi við íslensku UNESCO nefndina en það byrjaði sem tilraunaverkefni árið 2015. Verkefnið er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Að vera UNESCO-skóli felur í sér samkomulag og samvinnu milli skólans og UNESCO þar sem skólinn innleiðir verkefni tengdum einhverjum af fjórum þemum UNESCO-skóla. Þau eru: alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun og friður og mannréttindi.

UNESCO-skólarnir halda árlega upp á tvo ólíka alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna, t.d. alþjóðadaga mannréttinda, jafnréttis, læsis, hafsins, barnsins, friðar og vísinda. Skólarnir standa jafnframt árlega fyrir einum viðburði sem tengist Sameinuðu þjóðunum. Þetta geta verið þemadagar eða viðburðir sem tengjast gildum Sameinuðu þjóðanna eða heimsmarkmiðunum.

Nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga með UNESCO skjalið á ferð sinni um Ítalíu. Með þeim á myndinni eru Ida Marguerite Semey og Hólmar Hákon Óðinsson, kennarar við skólann

 

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi aðstoðar skóla í umsóknarferlinu og veitir ráðgjöf við innleiðingu verkefnisins. Verkefnastjóri UNESCO skóla á Íslandi er Kristrún María Heiðberg, kristrun@un.is