Verkefnið „Student Refugees“ veitir flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi aðstoð og leiðsögn við að sigrast á hindrunum sem mæta þeim innan menntakerfisins – segir á heimasíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Um ræðir verkefni sem á sér danska fyrirmynd. Að baki íslenska framtakinu stendur Landssamband íslenskra stúdenta, LÍS en það var árið 2019 sem verkefnið var upphaflega sett á fót á Íslandi. Verkefnið er unnið í sjálfboðaliðastarfi námsmanna á Íslandi sem bjóða sig fram við að aðstoða flóttafólk og hælisleitendur sem hafa áhuga á því að mennta sig.
„Við í LÍS berjumst fyrir jöfnum tækifærum allra nemenda og við vitum að flóttafólk á Íslandi mætir ýmsum hindrunum þegar kemur að menntun. Jafnvel þótt flóttafólk uppfylli allar kröfur getur verið erfitt að fóta sig innan kerfisins“, segir Derek Allen, formaður LÍS.
Heimsfaraldurinn setti hlé á starfsemi þess en nú eru hjólin aftur að byrja að snúast. Samfélag hefur skapast í kringum verkefnið en ekki er litið á vettvanginn einungis sem aðstoð við fólk að feta sig innan menntakerfisins og skilja leikreglurnar, heldur veitir hann þeim frekari aðgang inn í íslenskt samfélag og eykur vináttubönd.
Alls hefur tekist að aðstoða um 50 hælisleitendur og flóttafólk í gegnum verkefnið að sögn Guðbjargar Erlu Hallgrímsdóttur, alþjóðafulltrúa hjá LÍS. Meðal þeirra er Sayed Khanoghli sem flúði ungur frá Afghanistan. Hann stundar nám í menntaskóla sem hann hyggst klára 2023 og stefnir þá á áframhaldandi háskólanám. Hann segir verkefnið hafa aðstoðað hann gríðarlega við að aðlagast íslensku samfélagi og segist líða vel á Íslandi.
Vilja tryggja áframhaldandi stuðning við ungt flóttafólk
Unnið er hörðum höndum að því núna að gera verkefnið sjálfstæðara og síður háð LÍS svo að samfella skapist, þar sem ný stjórn samtakanna tekur við árlega. Markmiðið er að tryggja að áfram verði stuðningur til staða fyrir ungt flóttafólk á Íslandi sem hyggst njóta réttar síns og mennta sig.
„Við viljum að fólk mennti sig. Það auðveldar þeim að verða hluti af samfélaginu og nýta hæfileika sína til fulls“, sagði Erla í viðtali sínu við Elisabeth Arnlund, upplýsinga- og kynningastjóra Flóttamannastofnunar SÞ fyrir Norður- og Eystrasaltslöndin.
Félag Sameinuðu þjóðanna mælir svo sannarlega með frekari lestri á sögu Sayed og hvernig verkefnið “Student Refugees” hefur bæði aðstoðað hann og fleiri tugi af flóttafólki sem mætt hafa hindrunum í íslenska menntakerfinu.