Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála 2022-2032 UNESCO

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2019 var ákveðið að áratugurinn 2022-2032 yrði Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála eða IDIL (e. International Decade of Indigenous Languages). Fellur það í hlut stofnunarinnar UNESCO að standa að baki málefninu.

Helsta markmið áratugar frumbyggjamála er að vekja athygli á fækkun minnihlutamála, frumbyggjamála og fámennismála og minna á þörfina fyrir að varðveita þau og efla. Einnig verður lögð áhersla á að kynna frumbyggjamál á landsvísu og alþjóðavísu.

Með aukinni hnattvæðingu veikjast minnihluta-, frumbyggja- og fámennismál og eiga í hættu að deyja út. Samkvæmt UNESCO eru um 6.700 tungumál í heiminum í dag, en um 40% þeirra eru í útrrýmingarhættu. Þegar tungumál deyja út, er menning og þekking þess menningarhóps sem talar tungumálið einnig í útrýmingarhættu. Frumbyggjar eru oft einangraðir frá pólitísku og félagslegu umhverfi landanna sem þeir búa í vegna staðsetningar samfélaga þeirra, öðruvísi sögu, menningu, tungumála og hefða þeirra.

Frumbyggjar eru mikilvægir leiðtogar í verndun umhverfisins og ættu þekkingar- og samskiptakerfi þeirra í rauninni að vera viðurkennd í stefnumótun til sjálfbærrar þróunar, friðaruppbyggingar og sátta. Tungumál frumbyggja gera heiminn fjölbreyttari og án þeirra væri heimurinn fátækari.

Ásamt Noregi verður Ísland í stýrihóp fyrir hönd Evrópu en Birna Arinbjörnsdóttir er fulltrúi Íslands í stýrihópnum og undirbúningsnefnd UNESCO.

Vigdísarstofnun mun sjá um verkefni sem lúta að fámennistungumálum og hefur verið stofnaður vinnuhópur sem skipuleggur þau verkefni sem Vigdísarstofnun mun sjá um. Í vinnuhópnum eru Ásdís Rósa Magnúsdóttir stjórnarformaður Vigdísarstofnunar, Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir og Sofiya Zahova starfsmenn miðstöðvarinnar.

Samkvæmt Vigdísarstofnun ætlar stofnunin að:

  • Leggja áherslu á verkefni sem tengjast fámennismálumhverfi, minnihlutamálum og bókmenntum þeirra;
  • Skapa vettvang fyrir umræður um áhrif tungumálasambýlis á minnihluta- og fámennismál og endurskoðun á málstefnum til að ýta undir lífvænleika tungumála;
  • Leggja áherslu á vægi þýðinga frá og yfir á fámennismál;
  • Deila, kynna og miðla upplýsingum um IDIL 2022-2032, verkefni, starfsemi og árangur á Íslandi og meðal samstarfsaðila.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála hér

Og á síðu UNESCO sem er tileinkuð IDIL 2022-2032.