Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi skrifar undir nýjan samning við Mennta- og barnamálaráðuneytið um UNESCO-verkefnið.

Í morgun skrifaði Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undir fjögurra ára samning um UNESCO-skólaverkefnið.

Verkefnið hófst sem tilraunaverkefni fyrir rúmum sjö árum síðan. UNESCO-skólum hefur fjölgað síðustu tvö árin og eru þeir eru nú tólf talsins: einn leikskóli, fjórir grunnskólar og sjö framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í umsóknarferlinu. Verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi er Kristrún María Heiðberg.

„Samningurinn er tímamótasamningur en um ræðir einn stærsta samning sem Félag Sameinuðu þjóðanna hefur gert til þessa. Næstu fjögur árin mun Félagið halda áfram að efla verkefnið enn frekar og fjölga skólunum í samstarfi við ráðuneytið og íslensku UNESCO nefndina. Það eru breyttir tímar í samfélaginu okkar og við sjáum hversu mikilvægt það er að börn og ungmenni fái fræðslu í takt við það, hvort sem það er á sviði mannréttinda, alþjóðasamvinnu, heimsmarkmiðanna eða friðar. Við hjá Félaginu erum stolt og hreykin af þeim árangri sem náðst hefur með verkefninu hingað til og okkur hlakkar mikið til að halda þeirri vinnu áfram næstu árin með öllum sem koma að verkefninu,“ sagði Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri FSÞ, við þessi tímamót.

Samningurinn er liður í að efla fjölbreytt starf á vettvangi UNESCO og hluti af áherslum Íslands sem aðili að framkvæmdastjórn UNESCO árin 2021-2025.

Mynd: Sigurður Mikael. Ásmundur Einar og Vala Karen eftir undirskrift samningsins í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna í morgun.

 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Það er mikilvægt að undirbúa börn fyrir framtíðina með hliðsjón af gildum heimsmarkmiðanna. UNESCO-skólaverkefnið er liður í því starfi og hlakkar ráðuneytið til frekara samstarfs á komandi árum“.

Næstu fjögur árin mun félagið halda áfram að efla verkefnið enn frekar og fjölga skólunum í samstarfi við ráðuneytið og íslensku UNESCO-nefndina.

Meginmarkmið samningsins eru:

  • að styðja við innleiðingu á helstu þemum UNESCO-skóla: alþjóðasamvinnu, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin, frið og mannréttindi á leikskóla-, grunnskóla og framhaldsskólastigi;
  • að styðja við framgang aðgerðar 8 í menntastefnu stjórnvalda, Raddir unga fólksins – virkt nemendalýðræði á öllum skólastigum;
  • að styðja við stefnu um Barnvænt Ísland og
  • að efla lýðræðis- og mannréttindamenntun.
Mynd: Sigurður Mikael. Frá vinstri: Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi; Hera Melgar, starfsnemi hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi; Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra; Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi; Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi og Óskar Haukur Níelsson og Guðni Olgeirsson, sérfræðingar í mennta- og barnamálaráðuneytinu.