Fjöldi flóttafólks hefur aldrei verið meiri – fjöldi lausna ekki í samræmi við aukningu og umfang

Í dag er Alþjóðlegur dagur flóttafólks.

Þrátt fyrir ýmsar framfarir í málefnum flóttafólks er hraði og umfang nauðungarflutninga svo miklu meiri en lausnirnar sem til eru.
Fjöldinn hefur aukist á hverju ári undanfarinn áratug en samkvæmt UNHCR (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna) er ekki hægt að vinna bug á þessari þróun nema með meiri áherslu á friðarumleitanir.

Á hverju ári gefur UNHCR út skýrslu um málefni flóttafólks í heiminum og var skýrslan fyrir árið 2021 gefin út í síðustu viku. Í skýrslunni er meðal annars að finna tölfræði yfir fjölda flóttafólks og hefur fjöldinn enn og aftur hækkað, en í lok ársins 2021 voru 89.3 milljónir á vergangi um allan heim. Í skýrslunni er flóttafólk vegna innrásar Rússa í Úkraínu (og frá Sahel-héraði, DRC, Nígeríu og öðrum löndum) ekki talið með þar sem tölurnar ná einungis yfir árið 2021. En ef það fólk sem hefur þurft að leggja á flótta frá byrjun ársins 2022 er talið með, er talan komin yfir 100 milljónir.

Eitt af því sem er eftirtektarvert við síðasta ár samkvæmt skýrslunni er fjöldi þeirra átaka sem höfðu róast en stigmögnuðust á ný. 23 lönd (þar sem búa samtals 850 milljónir íbúa) stóðu frammi fyrir miðlungs- eða miklum átökum samkvæmt Alþjóðabankanum. Á sama tíma eru önnur vandamál líkt og loftslagsbreytingar, matarskortur og verðbólga sem ýta undir fólksflutninga.

 

Zahony lestarstöðin í Ungverjalandi er ein þeirra staða þar sem tekið hefur verið á móti mörgum flóttamönnum frá Úkraínu.
Mynd: Christopher Furlong

 

Þess má geta að á hverri mínútu þurfa 20 manns í heiminum að skilja allt sitt eftir til að flýja stríð, ofsóknir eða ofbeldi. Til fróðleiks má hér sjá skilgreiningar á mismunandi tegundum flóttafólks:

Flóttafólk (e. Refugees): Flóttamaður er manneskja sem þurfti að flýja heimaland sitt vegna stríðs, ofbeldis eða ofsahræðslu við ofsóknir vegna kynþáttar hans/hennar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í tilteknum þjóðfélagshópi eða stjórnmálaskoðana sinna.

Hælisleitendur (e. Asylum Seekers): Hælisleitendur eru fólk sem sækir um alþjóðlega vernd utan heimalanda síns. Hælisleitendur kalla sig flóttamenn en staða þeirra sem flóttafólk hefur ekki verið metin eða staðfest í landinu sem þau flúðu til.

Fólk á flótta innanlands (e. Internally Displaced Persons): Fólk á flótta innanlands er fólk sem er á flótta innan heimalands síns og hefurn því ekki farið yfir nein alþjóðleg landamæri á flótta sínum. Þetta fólk hefur þó flutt frá heimili sínu, til annars svæðis innan sama lands.

Ríkisfangslaust fólk (e. Stateless Persons): Ríkisfangslausir einstaklingar eiga ekki neitt viðurkennt ríkisfang og tilheyra því þannig séð ekki neinu landi. Ríkisfangsleysi stafar oft af mismunun gagnvart ákveðnum hópum. Ríkisfangsleysi getur útilokað fólk frá aðgangi að mikilvægri þjónustu ríkisins eins og heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnu.

Flóttafólk sem hefur snúið aftur heim (e. Returnees): Flóttafólk sem er í raun fyrrum flóttafólk hefur snúið aftur til síns heimalands eftir að hafa verið á flótta eða í útlegð. Þeir sem snúa aftur heim þurfa oft mikinn stuðning og tíma til aðlögunar til að tryggja að þau geti endurbyggt líf sitt í heimalandinu.

 

Mynd: Reuters / UNHCR / Alexander Ernochenko