Stockholm+50 ráðstefnan 2.-3.júní 2022

Stockholm+50 ráðstefnan var haldin nú á dögunum 2.-3. júní, í Stokkhólmi, í sömu viku og Alþjóðlegi umhverfismáladagurinn er haldinn (5. júní) og var slagorð ráðstefnunnar “Heilbrigð pláneta fyrir hagsæld allra – okkar ábyrgð, okkar tækifæri”.
Lykilþemu ráðstefnunnar voru; Leiðir til að breyta neyslu- og framleiðslumynstri samfélaga; Hvernig er hægt að gera neyslu hringrásarmiðaða og auka sjálfbærni þegar kemur að fjármálamálefnum.

Á ráðstefnunni komu ýmsir leiðtogar heimsins og ríkisfulltrúar viðskipta, alþjóðastofnanna, samfélaga og ungmenna saman til að knýja fram aðgerðir í átt að betri og heilbrigðari plánetu.

Brýn þörf er á að vinna saman til að takast á við loftslagsvandann og þær ógnir sem steðja að náttúrunni og líffræðilegum fjölbreytileika. Aukin mengun og úrgangur er einnig vaxandi vandamál sem þarfnast lausnar tafarlaust.

 

Andersen og Guterres

 

Á ráðstefnunni ítrekaði António Guterres framkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna, að við stæðum frammi fyrir þrefaldri kreppu í umhverfismálum heims;
“Neyðarástandi í loftslagsmálum sem drepur og neyðir sífellt fleira fólk á flótta á hverju ári; Niðurbroti vistkerfa sem auka tap á líffræðilegri fjölbreytni og skerða velferð fólks; Vaxandi flóði mengunar og úrgangs sem kostar um 9 milljónir mannslífa á hverju ári.”

Guterres nefndi skort á forystu og samvinnu en að það þyrfti að breyta um stefnu sem allra fyrst til að “binda endi á tilgangslaust sjálfsvígsstríð gegn náttúrunni”.

 

Twitter færsla Andersen

Í ávarpi sínu á ráðstefnunni sagði Inger Andersen, yfirmaður UNEP:
“Frá því að upphaflega ráðstefnan átti sér stað fyrir 50 árum hafa fjölmargir samningar verið gerðir sem ná yfir hverja einustu umhverfisáskorun, en það skortir gífurlega að sýna það í verki og hin þrefalda umhverfismálakreppa ýtir undir ójöfnuð og óréttlæti”.

“Við vitum betur en nokkru sinni fyrr um afleiðingar þess að ganga lengra niður kolefnisfreka þróunarbrautina og við vitum hvað við eigum að gera, og hvernig. …Stockholm+50 er tækifæri fyrir heiminn til að skuldbinda sig í eitt skipti fyrir öll, til að koma þesum umbreytingum í kring”.

 

Helstu tillögur aðildaríkja á Stockholm+50 ráðstefnunni beindust að því hvernig hægt sé að setja velferð mannsins í forgang með því að stuðla að heilbrigði plánetunnar okkar. Áhersla var lögð á mikilvægi hreins, heilbrigðs og sjálfbærs umhverfis og hvaða leiðir sé hægt að fara til að innleiða kerfisbundnar breytingar á núverandi efnahagskerfi heimsins.