Í lok maí var stjórnarfundur hjá Félaginu og gefin út ársskýrsla ásamt ársreikningum. Ljóst var fyrir fundinn að breytingar væru framundan hjá stjórn félagsins en tveir stjórnarmeðlimir sögðu sæti sínu lausu, þær Marta Magnúsdóttir og Hólmfríður Arnardóttir. Félagið þakkar þeim tveim vel unnin störf í þágu félagsins og óskar þeim velfarnaðar.
Önnur breyting var á en Eva Harðardóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur bauð sig fram í stjórn sem samþykkti inngöngu hennar einróma. Að undanförnu hefur Eva, sem hefur víðtæka þekkingu á málefnum Sameinuðu þjóðanna lagt félaginu lið meðal annars við UNESCO- skólaverkefnið og heimsmarkmiðin.
„Síðan ég var barn og unglingur hef ég haft brennandi áhuga á fólki og heiminum í heild sinni. Mér finnst mikilvægt að læra stöðugt af því hvernig við upplifum heiminn með ólíkum hætti á sama tíma og við leitumst við að stuðla að samvinnu og sátt á milli ólíkra hópa, fólks og náttúru í gegnum sameiginleg gildi sem snúa að friði, jafnrétti og frelsi.“
Í gegnum menntun sína og starf sem uppeldis- og menntunarfræðingur, kennari á ólíkum skólastigum og menntasérfræðingur hjá UNICEF í Malaví hefur hún lagt áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um þau grundvallarmannréttindi barna og ungmenna að tilheyra og vera þátttakendur í samfélagi jafningja. Hún segir menntun spilar þar afskaplega stórt hlutverk m.a. með því að stuðla að sjálfbærni og hnattrænni borgaravitund. Við stöndum frammi fyrir því að þvingaðir fólksflutningar fari vaxandi í heiminum öllum og því aðkallandi að mati Evu að samfélög um heim allan axli sameiginlega ábyrgð á því að skapa ungu fólki með bakgrunn innflytjenda og flóttafólks öruggt rými til að vaxa og dafna.
„Ég vonast til þess að þekking mín og reynsla nýtist vel í félagi SÞ á Íslandi og er afar þakklát fyrir það að fá að láta til mín taka á þessum mikilvæga vettvangi m.a. á sviði menntunar og menningar. Innan félagsins starfar fólk með afar víðtæka reynslu og bakgrunn sem ég hlakka til að læra af og með í gegnum þau fjölmörgu spennandi verkefni sem framundan eru.“
Stjórn býður Evu hjartanlega velkomna og hlakkar til samstarfsins.
Stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna skipa:
- Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, formaður. Alþingismaður, í leyfi frá störfum sem lögfræðingur hjá nefnd um eftirlit með lögreglu.
- Páll Ásgeir Davíðsson, varaformaður. Verkefnastjóri í málefnum réttarríkis og mannréttinda hjá Þróunaráætlun SÞ (UNDP)
- Sigurður Ingi Sigurpálsson.
- Böðvar Ragnarsson, þjóðfræðinemi við Háskóla Íslands.
- Eva Harðardóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur og doktorsnemi í Háskóla Íslands með rannsóknarefni ungs flóttafólks og alþjóðlegrar borgaravitundar.
- Sólveig Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Rainrace.
- Susan Christianen, viðskiptaþróunar- og markaðsstjóri hjá Auðna.
- Svava Jónsdóttir, blaðamaður.
- Sveinn H. Guðmarsson, deildarstjóri hjá Utanríkisráðuneytinu.
- Þórður Kristinsson, kennari við UNESCO skólann Kvennaskólann í Reykjavík og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
- Védís Sigrúnar Ólafsdóttir, verkefnastjóri Jafnréttisskóla GRÓ.
- Viktoría Valdimarsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri stjórnar hjá Ábyrgum lausnum ehf.