Fulltrúi UNFPA í Afghanistan heimsótti Ísland í síðustu viku

Dr. Aleksandar Sasha Bodiroza, fulltrúi Mannfjöldasjóðs (e. UNFPA) í Afghanistan var staddur hér á landi í síðustu viku.

Hann átti fund í Miðstöð SÞ ásamt Pernille, framkvæmdastjóra UNFPA á Norðurlöndunum og Mette og Emmi, tengiliðum ytri samskipta og ræddi við starfsfólk Félagsins, UNICEF og UN Women.

Mynd: UNFPA Nordic and Baltic. Frá vinstri:Mette tengiliður ytri samskipta UNFPA á Norðurlöndum, Kristrún verkefnastjóri UNESCO-skóla, Vala framkvæmdastjóri FSÞ, Dr. Aleksandar Sasha Bodiroza, Eyrún sérfræðingur í fjáröflun hjá UNICEF, Pernille framkvæmdastjóri UNFPA á Norðurlöndunum, Emmi tengiliður ytri samskipta UNFPA á Norðurlöndunum og Stella framkvæmdastýra UN Women.

 

Sasha fjallaði um þá alvarlegu stöðu sem konur og stúlkur í Afghanistan hafa búið við frá yfirtöku Talíbana þann 15. ágúst sl. Réttindi sem höfðu að miklu leyti áunnist fyrir konur í landinu síðustu áratugi hurfu eins og dögg fyrir sólu á einni nóttu. Mikil aukning hefur orðið á kynbundnu ofbeldi en það er gríðarlega mikilvægt að vinna gegn því með fræðslu og úrræðum fyrir þá hópa samfélagsins sem eiga í mestri hættu. UNFPA vinnur einnig að styrkingu mæðraverndar þar í landi, sálræna aðstoð. Reynst hefur erfitt fyrir margar stofnanir SÞ að vinna þar að málefnum er snúa sérstaklega að konum. Þá fjallaði Sasha líka um mikilvægi ungmenna almennt í landinu og að ná til fólks af öllum kynjum en um 67% þjóðarinnar er undir 25 ára. Eftir að stríð braust út í Úkraínu hefur illa tekist að fjármagna þá miklu þörf á aðstoð sem er á svæðinu. Því er ljóst að heilu kynslóðirnar af ungu fólki í landinu býr við verulega skert réttindi.

Þær stofnanir SÞ sem starfa á Íslandi, bæði UNICEF og UN Women hafa viðveru í Afghanistan og það var því áhrifaríkt fyrir starfsfólk Miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi að hitta Sasha og ræða við hann um málefni kvenna og stúlkna sem búa við skert réttindi á svæðinu. Nýlega reið einnig þar yfir mannskæður jarðskjálfti þar sem talið er að rúmlega 1.000 manns hafi látið lífið og fleiri þúsundir særðust eða misstu heimili sín. Í landinu sem er afar strjábýlt býr fólk einnig við sult og óöryggi. Eldri stúlkur fá ekki að ganga í skóla lengur eða gegna opinberum störfum og innviðir í landinu óöruggir.

Mynd: IOM. Fjölskyldur í Paktika þurfa á brýnni aðstoð að halda eftir að heimili þeirra eyðilögðust í jarðskjálftanum sem reið yfir Afghanistan.

 

Dr. Aleksandar átti einnig fund með fulltrúum utanríkis og þróunarmálanefndar Alþingis og fulltrúum úr Utanríkisráðuneytinu, enda er stofnunin búin að eiga í löngu og farsælu samstarfi með íslenskum stjórnvöldum og mun áfram koma til með að gera.