Aðalframkvæmdastjóri SÞ lýsti yfir vonbrigðum með tíundu endurskoðunarráðstefnu aðildarríkja NPT sáttmálans sem lauk án lokaniðurstöðu

Eftir fjórar vikur af umræðum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, lauk tíundu endurskoðunarráðstefnu aðildarríkja NPT sáttmálans um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (Non-Proliferation Treaty) seint síðastliðinn föstudag, án neinnar loka niðurstöðu vegna neitunar Rússa vegna orðalags um yfirráð þeirra yfir úkraínskum kjarnorkuverum og því náðist ekki samstaða.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti yfir vonbrigðum sínum yfir því að lönd gætu ekki komist að samkomulagi í þessum efnum. Hann segir mikla þörf vera fyrir viðræður til að draga úr yfirvofandi kjarnorkuógn, sérstaklega nú, eftir að löndin náðu ekki samkomulagi á ráðstefnunni. Á ráðstefnunni átti að endurskoða hinn merkilega sáttmála um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna.

Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í afvopnunarmálum, Izumi Nakamitsu lýsti einnig yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðuna.

“Við vissum öll að endanlegt uppkast var ekki fullkomnað skjal, en mikill meirihluti aðildarríkjanna töldu að það væri samt í þágu alþjóðasamfélagsins” sagði hún.

Nakamitsu sagði einnig að þótt þetta væri annað skiptið í röð sem ráðstefnunni lýkur án samstöðu að þá muni NPT ekki hrynja eða verða fyrir miklum skaða.

Hún sagði að svo hægt sé að snúa þessu mynstri við verði að tryggja rík tengsl og aðgerðir milli kjarnorkuvopnaríkja og þeirra sem eru ekki með kjarnorkuvopn, en fyrst og fremst innan kjarnorkuvopnaríkjanna sjálfra.

NPT sáttmálinn sem tók gildi í mars 1970 er eina bindandi skuldbindingin við markmið um afvopnun ríkja með kjarnorkuvopn.

Þrjú meginmarkmið sáttmálans eru: Afvopnun, bann við útbreiðslu kjarnorku og friðsamlega notkun kjarnorku. 191 lönd eru aðilar að sáttmálanum og Ísland skrifaði undir sáttmálann árið 1968.

 

“Sáttmálinn um afvopnun og bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna er grundvallarstoð alþjóðlegs friðar og öryggis og er kjarninn í stefnunni um afvopnun og bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Það sem er einstakt við sáttmálann er að nánast öll lönd í heiminum heiðra hann og stefnu hans um lagabundna skyldu um afvopnun , öryggisráðstafanir gegn útbreiðslu á kjarnorku og skuldbindingu um friðsamlega notkun á kjarnorku.”

-António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fimmtíu ára undirritunarafmæli NPT þann 24. maí í Genf.

 

 

 

Heimildir:

https://www.un.org/en/conferences/npt2020

https://news.un.org/en/story/2022/08/1125572