Engin ummerki um batnandi ástand í Afganistan ári eftir yfirtöku Talíbana í landinu

Gærdagurinn markaði ár frá því að Afganistan féll alfarið undir stjórn Talíbana. Þennan dag í fyrra flúði forsetinn Ashraf Ghani frá Afganistan og Talíbanar náðu formlega völdum á ný, eftir 20 ára hlé.

Ríkisstjórn Afganistan og forsetinn flúðu, auk þess sem erlend ríki kölluðu starfsfólk sendiráða sinna heim. Talíbanar eru trúarlegur öfgahópur súnní múslíma sem byggia á sjaríalögum sem er strangasta túlkun Íslamstrúar. Talíbanar fagna deginum sem þjóðhátíð og segja daginn marka nýtt upphaf, en dagurinn markar mikla afturför og sorg fyrir milljónir manna þar sem mikið harðræði hefur ríkt í landinu.

Afganskar konur fá matarskammta á matardreifingarstað í Herat, Afganistan.

Síðan Talíbanar náðu aftur völdum hafa markviss mannréttindabrot verið framin, sérstaklega gagnvart konum. Þeim hefur verið bannað að ferðast einar með flugvélum án þess að karlkyns skyldmenni sé með í för. Einnig eiga þær að hylja andlit og líkama á almannafæri og í sjónvarpi en einungis má sjást í augun á þeim. Samkvæmt reglum Talíbana mega stúlkur sem eru eldri en 12 ára ekki mennta sig í gagnfræði- og menntaskólum. Heimilisofbeldi, misnotkun og barnahjónabönd færast í aukana og ekkert bendir til þess að Talíbanar hafi í hyggju að standa við loforð sitt um að virða mannréttindi.

Sýndarhreinsun kvenna og stúlkna úr samfélaginu sem og kerfisbundin kúgun á þeim, er sérstaklega gróf. Hvergi í heiminum hefur verið gerð jafn útbreidd, kerfisbundin og umfangsmikil árás á réttindi kvenna og stúlkna. Mismunun og ofbeldið gagnvart þeim er ekki hægt að réttlæta á neinum forsendum.

 

“Bara svo það sé á hreinu: það sem við erum að verða vitni að í Afganistan í dag, er stofnanabundin, kerfisbundin kúgun kvenna” sagði Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.

 

Vestræn ríki og hjálparstofnanir hafa reynt að finna leiðir til að tryggja neyðaraðstoð í landinu en mannúðar- og efnahagskreppan sem nú ríkir þar hefur valdið milljónum skaða og sýnir engin merki um minnkun þess á næstunni. Spálíkön sem voru gerð af Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP gefa til kynna að um 97% íbúa verði bráðum nálægt eða undir fátæktarmörkum.

Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA er áfram í landinu og býður fram þjónustu sína í öllum landshlutum. Meginverkefni þeirra eru: mæðravernd, vernd og þjónusta fyrir fórnarlömb kynbundins ofbeldis og afhending sjúkragagna á borð við sjúkrakassa fyrir kynheilbrigði og getnaðarvarnir. Einnig eru á staðnum aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, meðal annars Barnahjálp SÞ, UNICEF sem sérstaklega hefur beitt fyrir sér mikilvægi menntunar allra barna á öllum aldri og almennri hjálparaðstoð, bólusetningar o.fl. en einnig UN Women, UNAMA (Human Rights Service of the UN Assistance Mission in Afghanistan)og Matvælaaðstoð SÞ, WFP.

 

 

Heimildir: Fréttablaðið,

https://www.ruv.is/frett/2022/08/15/afganistan-ari-eftir-valdatoku-talibana

https://news.un.org/en/story/2022/08/1124592

https://news.un.org/en/story/2022/06/1120492