Eftirfarandi eru skilaboð aðalframkvæmdastjóra SÞ, Antonio Guterres í tilefni alþjóðadagsins:
Í dag, 12. ágúst er haldið upp á alþjóðadag æskunnar (e. International Youth Day). Þema þessa árs “Samstaða milli kynslóða: Að skapa heim fyrir alla aldurshópa” – minnir okkur á grundvallar sannleik; við þurfum fólk á öllum aldri, unga sem aldna, til þess að taka höndum saman um að byggja upp betri heim fyrir alla.
Of oft eru aldursfordómar, hlutdrægni og mismunun sem koma í veg fyrir þetta mikilvæga samstarf. Þegar ungt fólk er útilokað frá mikilvægum ákvörðunum sem teknar eru um líf þeirra, eða þegar eldra fólki er neitað um að leyfa rödd sinni að heyrast – þá töpum við öll.
Samstaða og samvinna eru því nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr þar sem heimur okkar stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum sem ógna sameiginlegri framtíð okkar. Frá COVID-19 til loftslagsbreytinga, til átaka, fátæktar, ójöfnuðar og mismununar, nú þurfum við allar hendur upp á dekk til að ná heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og byggja upp betri og friðsamlegri framtíð sem við öll sækjumst eftir.
Við þurfum að styðja ungt fólk með auknum fjárfestingum í menntun og færni uppbyggingu – þar á meðal í gegnum leiðtogafund “Transforming Education”sem fer fram í næsta mánuði í New York. Einnig þurfum við að styðja við jafnrétti kynjanna og aukin tækifæri ungs fólks til þátttöku í borgaralegu og pólitísku lífi.
Það er ekki nóg að hlusta á ungt fólk. Við þurfum að hafa það með í allri ákvarðanatöku, bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Þetta er kjarninn í tillögu okkar um að koma á fót nýrri æskulýðsskrifstofu hjá Sameinuðu þjóðunum.
Eins þurfum við að tryggja að eldri kynslóðir hafi aðgang að félagslegri vernd og tækifærum til að gefa af sér til samfélagsins og deila þeirri áratuga reynslu sem þær hafa aflað sér.
Á þessum mikilvæga degi skulum við taka höndum saman, kynslóða á milli til að brjóta niður hindranir og vinna sem heild að því að ná fram sanngjarnari, réttlátari og innihaldsríkari heimi fyrir alla.
Heimild: