Alþjóðadagur hreins lofts í þágu heiðskírs himins er í dag

Í dag er alþjóðadagur hreins lofts í þágu heiðskírs himins.
Kaldur morgunn í Pingjum Friesland, Hollandi. Mynd: WMO Photostream/Anna Zuidema
 

Þema ársins í ár ,,The Air We Share” fjallar um eðli loftmengunar yfir landamæri og leggur áherslu á þörfina fyrir sameiginlega ábyrgð og aðgerðir. Þemað undirstrikar einnig þörfina á tafarlausu og stefnumótandi, alþjóðlegu og svæðisbundnu samstarfi til að framfylgja skilvirkari framkvæmd mótvægisstefnu og aðgerða til að takast á við loftmengun.

Við öndum öll að okkur sama loftinu og sama andrúmsloft verndar og viðheldur okkur öllum. Mengun er hnattrænt vandamál sem við verðum að bregðast við saman til að berjast gegn.

Tvíþætt vandamál

Áhrif á heilsu: örsmáar, ósýnilegar mengunaragnir komast djúpt inn í lungu okkar, blóðrás og líkama. Þessi mengunarefni eru ábyrg fyrir um þriðjungi dauðsfalla af völdum heilablóðfalls, langvinnra öndunarfærasjúkdóma og lungnakrabbameins, auk fjórðungs dauðsfalla af völdum hjartaáfalls. Óson á jörðu niðri, sem myndast við samspil margra mismunandi mengunarefna í sólarljósi, er einnig orsök astma og langvinnra öndunarfærasjúkdóma.

Loftslagsáhrif: Skammlíf loftslagsmengunarefni (SLCPs) eru meðal þeirra mengunarefna sem mest tengjast bæði heilsufarslegum áhrifum og hlýnun jarðar. Þessi efni lifa áfram í andrúmsloftinu allt frá nokkrum dögum í allt að nokkra áratugi, þannig að með því að draga úr þeim getur það nánast strax haft heilsufars- og loftslagslegan ávinning fyrir þá sem búa á stöðum þar sem efni sem þessi eru til staðar.

 Að koma í veg fyrir og draga úr loftmengun til að bæta loftgæði á heimsvísu

Loftmengun er ein mesta umhverfisáhætta fyrir heilsu manna og ein helsta orsök dauða og sjúkdóma á heimsvísu, en áætlað er að um 6,5 milljónir ótímabærra dauðsfalla (2016) um allan heim séu rakin til loftmengunar bæði innan- og utandyra. Sérstaklega í þróunarlöndum hefur loftmengun óhófleg áhrif á konur, börn og aldraða, sérstaklega hjá lágtekjufólki þar sem þau verða oft fyrir mikilli umlykjandi loftmengun og einnig innandyra vegna eldunar og upphitunar með viðareldsneyti og steinolíu.

Loftmengun er alþjóðlegt vandamál með víðtækum áhrifum vegna flutninga hennar um langar vegalengdir. Ef ekki verður gripið til aðgerða til að sporna við þessari þróun er áætlað að ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar í umhverfinu fjölgi um meira en 50 prósent árið 2050.

Samfélagið ber þar af leiðandi mikinn kostnað af loftmengun vegna neikvæðra áhrifa þess á atvinnulífið, framleiðni í starfi, heilbrigðiskostnaðar og ferðaþjónustu, meðal annars. Þess vegna er ekki hægt að ofmeta efnahagslegan ávinning af fjárfestingu í loftmengunarvörnum og hafa verður í huga að einnig er um að ræða efnahagslegan rökstuðning fyrir því að bregðast við og að hagkvæmar lausnir séu til staðar til að takast á við loftmengun.

Slæm loftgæði eru áskorun í tengslum við sjálfbæra þróun fyrir öll lönd, einkum í borgum og þéttbýli í þróunarlöndum, þar sem að magn loftmengunar er mun hærra en þau mörk sem sett eru fram í leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um loftgæði.

Sum loftmengunarefni, svo sem svart kolefni, metan og óson á jörðu niðri, eru einnig skammlíf loftslagsmengunarefni og bera ábyrgð á verulegum hluta dauðsfalla af völdum loftmengunar, auk áhrifa á ræktun og þar með fæðuöryggi, þannig að minnkun þeirra hefur samhliða ávinning fyrir loftslagið.

Hreint loft og heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun

Í ályktunarskjali ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem ber yfirskriftina “Framtíðin sem við viljum” (e. The Future We Want), skuldbinda ríki sig til að stuðla að sjálfbærri þróunarstefnu sem styður við heilbrigð loftgæði í tengslum við sjálfbærar borgir og byggðir manna. Einnig styður það við áætlun um sjálfbæra þróun til ársins 2030 (e. Agenda 2030), þar sem gerð er grein fyrir svokölluðu ‘vegakorti’ til að ná fram sjálfbærri þróun, umhverfisvernd og hagsæld fyrir alla. Þar er fjallað sérstaklega um mikilvægi þess að draga úr loftmengun ef ná á heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun.

 

Heimildir:

International Day of Clean Air for blue skies | United Nations