Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) stuðlar að fjölbreyttum verkefnum á sviði menningar- og menntamála – þar með talið menningarlegri fjölbreytni, verndun náttúru- og menningarminja og alþjóðlegu samstarfi í vísindum og menntamálum. Ísland gerðist aðili að UNESCO 1964 og hefur verið starfandi landsnefnd UNESCO á Íslandi frá 1966.
Þann 1. september síðastliðinn stóð landsnefnd UNESCO á Íslandi fyrir UNESCO deginum í þriðja sinn, samráðs- og kynningarfundi íslenskra aðila sem vinna að UNESCO verkefnum hér á landi og sinna samstarfi við stofnunina. Fundurinn fór fram í gestastofu Haksins á Þingvöllum.
Fulltrúar níu aðila og verkefna kynntu nýleg verkefni og hvað væri helst að frétta af vettvangi þeirra.
• Sæunn Stefánsdóttir, formaður landsnefndar, og Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, aðalritari íslensku UNESCO nefndarinnar, fóru yfir það helsta sem fram fór á síðustu aðalráðstefnu UNESCO í nóvember 2021 og Evrópufundi UNESCO landsnefnda sem fram fór á Íslandi í maí sl.
• Gestgjafi dagsins, Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður Þingvalla, fjallaði um áskoranir og tækifæri Þingvalla sem eru á heimsminjaskrá UNESCO.
• Þá kynnti Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóra Svæðisgarðs Snæfellsness, áform um að mynda fyrsta vistvanginn á Íslandi undir merkjum UNESCO eða Man and Biosphere.
• Auðbjörg Halldórsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO, fór yfir verkefni Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO en Ísland var kosið í framkvæmdastjórnina á aðalráðstefnu UNESCO í París í nóvember sl, og er Ísland fulltrúi Norðurlandanna í framkvæmdastjórninni.
• Næst kynntu Ann-Sofie Nielsen Gremaud, stjórnarformaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, og Sofiya Zahova, forstöðumaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, starf Vigdísarstofnunar og þátttöku hennar í áratugi frumbyggjamála hjá UNESCO (IDIL 2022-2032).
• Þá fjallaði Sigurður Sigursteinsson, formaður stjórnar Kötlu jarðvangs (e. Geopark) um úttektarkerfi jarðvanga hjá UNESCO, og Daníel Einarsson, verkefnisstjóri hjá Reykjans jarðvangi, fjallaði um þær áskoranir sem jarðvangurinn hefur staðið fyrir í nýlegum eldsumbrotum.
• Næst fjölluðu Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Kristrún María Heiðberg, verkefnisstjóri UNESCO-skóla um verkefnið UNESCO-skólar og samhengið við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
• Að lokum fjallaði Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, um starfið framundan og samstarfið við UNESCO, og Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskólans og Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, sem báðir starfa undir hatti GRÓ, sýndu dæmi um hvernig samstarfið við UNESCO hefur nýst við þróun skólanna.
UNESCO dagurinn er mikilvægur samráðsvettvangur íslenskra aðila að UNESCO. Á vettvangi sem þessum gefst þeim aðilum sem starfa undir merkjum UNESCO á Íslandi að stilla saman strengi og auka samstarf sín á milli. Til stendur að halda UNESCO-daginn aftur að ári.
*Frétt fengin frá Íslensku UNESCO nefndinni á Íslandi.