Ljósmyndasýningin ‘Child mothers’ opnuð í Smáralind

Í dag opnaði ljósmyndasýningin ‘Barnungar mæður’ eða ‘Child mothers’ í Smáralind á alþjóðlegum degi stúlkubarnsins.

Utanríkisráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir opnaði sýninguna formlega ásamt Pernille Fenger, skrifstofustjóra norrænu skrifstofu UNFPA, Mannfjöldasjóðs SÞ og Völu Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóra Félags SÞ. Ungmenni úr 9. og 10. bekk Salaskóla voru viðstödd opnunina og kynntu sér sögurnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags SÞ ásamt Pernille Fenger, skrifstofustjóra norrænu skrifstofu Mannfjöldasjóðs SÞ. Mynd: Utanríkisráðuneytið
Nemendur úr 9. og 10. bekk Salaskóla ásamt Þórdísi ráðherra, Völu frá Félagi SÞ og Pernille frá Norðurlandadeild UNFPA. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

 

Sýningin fjallar um aðstæður ungra stúlkna sem takast á við móðurhlutverkið í fimm ólíkum ríkjum heimsins. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á stöðu þeirra og veruleika og um leið mikilvægi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu til að stuðla að auknum réttindum stúlkna og kvenna. Þar ber sérstaklega að nefna að mikilvægt sé að binda enda á skaðlegar hefðir sem hafa ótríræð áhrif á líf stúlkubarna, líkt og barnahjónabönd og kynfæralimlestingar.

Á hverju ári er áætlað að um tvær milljónir stúlkna eignist börn fyrir fimmtán ára aldur. Barnæsku þeirra er skipt út fyrir móðurhlutverk – oft gegn þeirra vilja. Stúlkur í slíkri stöðu geta staðið fyrir miklum hindrunum í lífinu þar sem þær ná oft ekki að mennta sig, giftast ungar og margar hverjar lifa með alvarlegum heilsufarsvandamálum tengdum meðgöngu þar sem þær hafa ekki náð fullum líkamsþroska.

Ljósmyndarinn Pieter ten Hoopen og fjölmiðlakonan Sofia Klemming Nordenskiöld hittu barnungar mæður í fimm löndum og þremur heimsálfum. Sögur þeirra sýna raunveruleikann sem barnungar mæður standa frammi fyrir og sýna okkur; hvers vegna þær urðu mæður svona ungar, hvaða erfiðleikum þær standa frammi fyrir, í hverju hamingja þeirra felst og frá brostnum og nýjum draumum – þeirra eigin og fyrir hönd barna þeirra. Með #childmothers, leitast Plan International og UNFPA, Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna við að gefa þessum stúlkum rödd. Það þarf að leggja meira af mörkum til að vernda stúlkur í þessari stöðu og
gera þeim kleift að taka eigin ákvarðanir. Þá er ekki síst mikilvægt að ná til þeirra sem eru nú þegar orðnar mæður og tryggja möguleika þeirra á að snúa aftur í skóla og fylgja draumum sínum.

UNFPA, Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna er sú stofnun SÞ sem vinnur að því að efla og tryggja kyn- og frjósemisheilsu og réttindi stúlkna og kvenna. Stofnunin vinnur í yfir 150 löndum og á í samstarfi við stjórnvöld, borgarasamfélag, einkageirann, fræðisamfélagið og tileinkar sér
mannréttindamiðaða nálgun í öllu starfi sínu. Stofnunin leggur áherslu á konur og ungt fólk – einnig í mannúðaraðstoð.

Sýningin stendur yfir frá og með deginum í dag, 11. október en loka dagur hennar er 24. október, á degi Sameinuðu þjóðanna. Sýningin er staðsett á fyrstu hæð í Smáralind, fyrir utan Lyfju. Öll velkomin!