Þann 24. september fóru fjórir nemendur ásamt kennara sínum úr Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ til Danmerkur á ráðstefnuna „Nordic Camp – Stand Up For Human Rights“ en markmið hennar var að auka þekkingu og áhuga á mannréttindum hjá yngri kynslóðinni. Á ráðstefnunni voru 14-18 ára nemendur frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Finnlandi, Danmörku og Kanada. Þegar allir voru komnir fór hópurinn í skemmtilega ferð um Kaupmannahöfn og nærliggjandi svæði eins og Hróarskeldu og Krónborgarkastala.
Ferðin var fjármögnuð af dönsku UNESCO deildinni , en FMOS hefur verið UNESCO skóli frá árinu 2020. Þeir nemendur sem fóru í ferðina eru: Arnaldur Daðason, Kristján Brjánsson, Matthildur Sela Albertsdóttir og Savia Guimaraes.
Nemendur tóku þátt í umræðum og „workshops“ og ræddu m.a. um hvernig hægt væri að auka þekkingu ungs fólks á mannréttindum, flestir voru sammála því að besta leiðin til þess sé með fræðslu. Fulltrúar frá Rapolitics og The Danish Institute for Human Rights komu og héldu fyrirlestur um það hvernig hægt væri að koma boðskapnum áleiðis í gegnum rapp og hipp hopp og vakti það mikla lukku.
Þegar ráðstefnunni lauk fóru allir nemendurnir í aðra skóla til þess að sjá kennsluhætti þar. Íslensku krakkarnir þurftu ekki að fara langt því skólinn þeirra var í Köben. Skólinn heitir Niels Brock og er einn elsti verslunarskóli á landinu. Það var skemmtilegt prógramm sem skólinn hafði skipulagt fyrir íslenska hópinn, það voru gerð verkefni um mannréttindi og síðan var farið í Kristjaníu sem var hápunktur ferðarinnar.
Hópurinn kom aftur heim 1. október alsæl með mikilvæga þekkingu og reynslu um mannréttindi og mikilvægi þeirra, sem nemendur munu seint gleyma.