Öflugt ungt fólk með sterkar raddir

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Ásta Henriksen, þróunarstjóri og kennari í Verzló, og Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla, ásamt hópi nemenda sem vann að verkefninu.

,,Mér bárust spurningar nemenda um menntamál  og komst að því að það væri fyrir tilstuðlan verkefnis sem fyrsta árs nemar væru að vinna í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfarið bauðst mér að heimsækja skólann og ræða við þau,‘‘ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem heimsótti nýlega nemendur á 1. ári í Verzlunarskóla Íslands.

,,Það var frábært að sjá áhugann og metnaðinn í verkefnunum og ljóst að þar fer öflugt ungt fólk með sterkar raddir – Raddir sem stjórnvöldum ber að hlusta á. Ég vil þakka kærlega fyrir heimboðið í Verzló og hlakka til þegar verkefnin eru tilbúin.‘‘

Nemendur sýndu mikið frumkvæði og metnað í verkefninu. Hver hópur átti að velja sér eitt heimsmarkmið og vinna með það. Nokkrir hópar völdu heimsmarkmið nr. 4 – Menntun fyrir alla og tóku í kjölfarið viðtal við Ásmund Einar um menntamál.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Ásta Henriksen, þróunarstjóri og kennari í Verzló, og Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla, ásamt hópi nemenda sem vann að verkefninu.

Ásta Henriksen, kennari og þróunarstjóri í Verzlunarskóla Íslands, leiðir verkefnið. ,,Nemendur vinna í teymum og fá tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn því þeir stýra því sjálfir í hvaða átt þeir fara með verkefnið og hver útkoman verður,‘‘ segir Ásta. ,,Undirbúningur að verkefninu hefur staðið yfir í hálft ár og er markmiðið með því að nemendur þjálfist í hæfni sem talin er mikilvæg fyrir störf þeirra í framtíðinni, til dæmis að sýna frumkvæði, leita lausna og vinna með öðrum.‘‘

Þess má geta að Verzlunarskóli Íslands er í innleiðingarferli að verða UNESCO skóli en eitt af meginþemum UNESCO skóla er að vinna með heimsmarkmið SÞ.

Nemendur taka viðtal við ráðherra um heimsmarkmið 4 sem snýr að menntun.
Ráðherra fór svo í kennslustofur og fylgdist með verkefnavinnu nemenda.