Verzló er 16. UNESCO – skólinn á Íslandi

Verzlunarskóli Íslands er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 16 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og níu framhaldsskólar.

Nemendur á 1. ári í Verzló unnu nýlega metnaðarfullt þróunarverkefni um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. Um var að ræða samþættingarverkefni í ensku, hagfræði, íslensku og tölvunotkun. Í upphafi verkefnisins hélt Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla, fyrirlestur um heimsmarkmiðin og fékk að fylgjast með vinnu nemenda. Þegar verkefnið var komið lengra á veg kom Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í heimsókn til nemenda og ræddi við þá um menntun og heimsmarkmiðin. Nemendur notuðu einnig tækifærið og tóku viðtal við Ásmund Einar, m.a. um heimsmarkmið nr. 4.

Nemendur ræða við Ásmund Einar Daðason, mennta – og barnamálaráðherra, um menntun og heimsmarkmiðin.

UNESCO –skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12.000 talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim. UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi.

Velkominn í hópinn Verzló!