Verzló og heimsmarkmiðin

Nemendur á 1. ári í Verzlunarskóla Íslands vinna nú að metnaðarfullu þróunarverkefni um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. Um er að ræða samþættingarverkefni í dönsku, ensku, hagfræði, íslensku og tölvunotkun.

Í upphafi verkefnisins hélt Kristrún fyrirlestur um heimsmarkmiðin. Að því loknu fékk hún að fylgjast með vinnu nemenda.

,,Það var frábært að fá að fylgjast með vinnu nemenda og ræða við þau um heimsmarkmiðin. Mörg þeirra þekkja vel til heimsmarkmiðanna og hafa greinilega hugsað um þessi mikilvægu málefni. Það verður fróðlegt að heyra tillögur þeirra og hvaða lausnir þau sjá fyrir sér. Þetta eru flottir krakkar með mikinn metnað og á meðan svo er þá getur framtíðin ekki verið annað en björt,’’ segir Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla.

Kristrún María, verkefnastjóri UNESCO skóla á Íslandi hélt fyrirlestur fyrir nemendur á fyrsta ári í Verzló um heimsmarkmiðin í upphafi þróunarverkefnisins.

Í verkefninu vinna nemendur í teymum og fá tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn því þeir stýra því sjálfir í hvaða átt þeir fara með verkefnið og hver útkoman verður. Hugmyndin að baki verkefninu, sem stendur yfir í tvær vikur, er meðal annars sótt í aðalnámskrá framhaldsskóla, stefnu Verzlunarskóla Íslands, skólaþing og nýlegar íslenskar og erlendar menntarannsóknir. Undirbúningur að verkefninu hefur staðið yfir í hálft ár og er markmiðið með því að nemendur þjálfist í hæfni sem talin er mikilvæg fyrir störf þeirra í framtíðinni, til dæmis að sýna frumkvæði, leita lausna og vinna með öðrum.

Fyrir áhugasama má lesa til um verkefni Verzlunarskólans hér og skoða myndir hér