COP27 – og hvað svo? Opinn fundur um Loftlagsráðstefnu SÞ

Opinn fundur var haldinn í dag, föstudaginn 2. desember kl. 12.00 – 13.30 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands á vegum UNICEF á Íslandi, Ungra umhverfissinna, Félags Sameinuðu þjóðanna, Höfða friðarseturs og Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands.
Nýverið lauk loftslagsráðstefnunni COP27 í Sharm El-Sheikh þar sem að þjóðarleiðtogar leituðu leiða til þess að bregðast við örum loftslagsbreytingum. Eftir áratuga baráttu náðist samningur um að setja á fót loftslagsbótasjóð fyrir fátækari ríki heims til að takast á við þann skaða sem þau verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Hins vegar fólust að margra mati ákveðin vonbrigði í því að ekki var nóg gert til þess að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda umfram það sem áður hafði verið ákveðið.
Á þessum opna hádegisfundi fórum við yfir niðurstöður COP27 ráðstefnunnar og spurðum okkur, hvað svo? Hver var upplifun þátttakenda af ráðstefnunni og hvaða skilaboð eiga leiðtogar að taka með heim til Íslands? Hvað er barnvæn loftslagsstefna og eru íslensk markmið í takti við slíka stefnu? Hvaða áhrif getur ungt fólk haft á framtíð loftslagsmála? Getum við gert betur?
Á fundinum tók til máls Amy Wickham, sérfræðingur UNICEF í loftslags-, orku- og umhverfismálum, en í erindinu ræddi hún upplifun sína af COP27 ráðstefnunni og möguleikana sem felast í barnvænni loftslagsstefnu. Auk þess deildu Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna og Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi, sínum upplifunum og þeirra sýn á framhaldið. Þess má geta að Finnur Ricart er einnig núverandi ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði loftlagsmála en þetta var hans önnur loftlagsráðstefna. Tinna gengdi þá einnig stöðu ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar árið 2020.
Undir fundarstjórnar Gunnar Dofra Ólafssonar var svo í lok kynninga boðið upp á pallborð. Þátttakendur voru:
Amy Wickham, sérfræðingur UNICEF í loftslags-, orku- og umhverfismálum
Steffi Meisl, kynningar- og fræðslufulltrúi Ungra umhverfissinna
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og
Helga Barðadóttir, formaður samninganefndar Íslands gagnvart Loftslagssamningnum og sérfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu
Fundurinn heppnaðist einkar vel og það var mikill hugur í fólki og góðar umræður í pallborði. Ljóst er að langt sé enn í land við að ná markmiðum sem Ísland hefur sett sér og enn óljósara hvernig það verður gert. Mikil aukning hefur átt sér stað í þátttöku ungs fólks á ráðstefnu UNFCCC og samþykktir um bótasjóð loksins komnar á blað eftir áralanga baráttu þó enn sé ekki búið að útfæra hvernig hann mun virka.
Fyrir áhugasama sem misstu af viðburðinum í dag má nálgast upptöku hér.
Myndir af viðburðinum má skoða hér að neðan.
Amy Wickham sérfræðingur hjá UNICEF fór yfir stöðu barna og barnvæna loftlagsstefnu.
Gunnar Dofri sá um fundarstjórn
Finnur Ricart, loftlagsfulltrúi tók þátt rafrænt.
Tinna, forseti Ungra Umhverfissinna fór yfir niðurstöður frá COP27.
Pallborðið góða, frá vinstri: Amy Wickham frá UNICEF, Steffi Meisl frá Ungum Umhverfissinnum, Halldór, formaður Loftlagsráðs og Helga, formaður samninganefndar Íslands gagnvart Loftslagssamningnum og sérfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu.