Heimsins stærsta kennslustund

Heimsins stærsta kennslustund var formlega sett af stað í Landakotsskóla 6. des. síðastliðinn. Eliza Reid forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, héldu erindi um menntun. Fulltrúar frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ stýrðu kennslustundinni.

Heimsins stærsta kennslustund er verkefni sem miðar að því að efla fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og auka vitund nemenda um alþjóðamál og sjálfbærni. Þemað að þessu sinni er heimsmarkmið nr. 4 – Menntun fyrir alla.

Hvatt er til þess að allir grunnskólar landsins taki þátt í Heimsins stærstu kennslustund með því að nýta sér námsefni um heimsmarkmið 4, sem finna má á vef Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, https://www.un.is, undir Heimsins stærsta kennslustund 2022.

UNESCO-skólaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, en eitt forgangsmála verkefnisstjórnar sem vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi er að efla menntun og fræðslu þegar kemur að sjálfbærni, frið og mannréttindum.

UNESCO-skólar eru um 12 þúsund talsins um heim allan í yfir 180 löndum. Áhersluatriði þeirra eru friður og mannréttindi, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamstarf og starfsemi SÞ. UNESCO-skólar á Íslandi eru nú 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar.

Kærar þakkir Þröstur, Íris og Agnes úr Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ og takk frábæru nemendur í 8. bekk í Landakotsskóla!

 

Þröstur, Agnes og Íris frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ ásamt Elizu forsetafrú og verndara Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Kristrúnu Maríu Heiðberg, verkefnastjóra UNESCO-skóla á Íslandi.

 

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hélt erindi um menntun og kom m.a. inn á móttöku flóttabarna. Hann sagði mikilvægt að íslenskt skólakerfi tæki vel á móti þeim.