Alþjóðleg ár hirsis og samtals í þágu friðar – málefni SÞ sem tileinkuð eru árinu 2023

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað árinu 2023 sem alþjóðlegu ári hirsis og alþjóðlegu ári samtals í þágu friðar (e. International Year of Millets, International Year of Dialogue as a Guarantee of Peace).

Í viðtali við Morgunblaðið þann 27. desember síðastliðinn fjallaði framkvæmdastjóri Félags SÞ, Vala Karen Viðarsdóttir um þessi mikilvægu málefni:

 „Hvor tveggja eru viðeigandi málefni í þeirri stöðu sem nú er uppi í alþjóðasamfélaginu… [og] Hjá félaginu vekjum við athygli á þessum málum með samtali og fræðslu til almennings, heimsækjum skóla og stofnanir og ræðum við fjölmiðla. Leiðirnar eru margar og málefnin sem snerta allt mannkynið eru mikilvæg.“

Hirsi er ein helsta stoð lífsviðurværis samfélaga um allan heim en mikið hefur reynt á kornframleiðslu og flutning þess síðastliðið ár.

„Kornskortur vegna stríðsins í Úkraínu hefur haft neikvæð áhrif víða. Því þarf viðurkenningu á því að landbúnaður og fæðukerfið eru hvor sín hliðin á sama peningnum. Ný tækni og stafræn þróun geta sömuleiðis aukið virði framleiðslu og þar geta komið til bættar aðferðir við verkun, framleiðslu, flutninga, viðskipti, endurvinnslu og annað.“ – Vala Karen Viðarsdóttir

Í tengslum við málefni ársins er varðar mikilvægi samtals í þágu friðar ítrekaði hún mikilvægi þess til tryggingar mannréttinda á alþjóðavísu.

„Að koma í veg fyrir átök, vinna að friðsamlegri lausn deilumála, leita sátta og halda úti friðargæslu og afvopnun er hluti af því. Einnig að stuðla að mannlegri reisn og tryggja fólki réttindi og skapa möguleika til þátttöku í lýðræðislegum samfélögum þar sem jafnrétti er í heiðri haft. Þetta skiptir allt máli fyrir frið í heiminum. Skilningur á mismunandi trúarbrögðum og menningarlegri fjölbreytni um allan heim gerir slíkt einnig og að velja samræður og samningaviðræður í stað árekstra er nokkuð sem SÞ eiga að þjóna, sem vettvangur til þess að tryggja þessi tengsl og umburðarlyndi ólíkra þjóða.“

Þess að auki fjallaði Vala um starf félagsins er varðar kynningar á málefnum, verkefnum og alþjóðadögum SÞ.

„Margir alþjóðadaganna eru haldnir hátíðlegir í íslensku samfélagi, bæði af skólum, fyrirtækjum, stjórnvöldum og samtökum svo fátt sé nefnt.“

Fyrir áhugasama er fréttin hér í heild sinni:

Heimildir:

Morgunblaðið 27. desember 2022. Bls. 11 í prentaðri útgáfu.