Félag SÞ stýrir vinnu samráðsvettvangs félagasamtaka í landrýniskýrslu Íslands um heimsmarkmið SÞ

Þann 11. janúar síðastliðinn fór fram kynningarfundur um samráðsvettvang félagasamtaka um stöðu innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Árið 2019 skiluðu íslensk stjórnvöld síðast VNR landrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) til Sameinuðu þjóðanna varðandi innleiðingu markmiðanna á Íslandi, en þetta árið munu frjáls félagasamtök fá að taka þátt við gerð skýrslunnar. Þannig munu íslensk félagasamtök veita íslenskum stjórnvöldum aðhald, með aðkomu sinni, áliti og ráðleggingum með svokallaðri úttekt borgarasamfélagsins (e. Civil Society Assessment).

Í skýrslunni munu íslensk stjórnvöld gera grein fyrir aðgerðum Íslands í þágu markmiðanna og stöðu innleiðingar þeirra hér á landi. Á svipaðan hátt munu frjáls félagasamstök  vinna saman að sameiginlegu mati á stöðu og innleiðingu markmiðanna í íslensku samfélagi. Aðkoma borgarasamfélagsins að skýrslunni til Sameinuðu þjóðanna kallast Civil Society Assessment og mun Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stýra þeirri vinnu sem felst í því að skapa samráðsvettvang þar sem ólík frjáls félagasamtök (og hagaðilar) munu skrifa texta um stöðu Íslands gagnvart hverju heimsmarkmiði fyrir skýrsluna. Skýrsla Íslands mun verða kynnt á ráðherrafundi (e. High Level Political Forum) í New York í júlí á þessu ári.

Tæplega 50 félagasamtök mættu á kynningarfundinn í Safnahúsinu þann 11. janúar, en alls munu hátt í 70-80 félagasamtök koma að verkefninu sem nú þegar er hafið en fyrstu vinnuhóparnir hittust í vikunni á rafrænum fundi.

Vala Karen, framkvæmdastjóri FSÞ og Eva Harðar stjórnarmeðlimur kynntu samráðsvettvanginn og vinnuna fram undan fyrir samtökunum ásamt Ástu, sérfræðingi frá skrifstofu stefnumála innan Forsætisráðuneytisins sem er það ráðuneyti sem er í forgrunni fyrir heimsmarkmið SÞ.