Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FIV) hélt upp á viðburðaríkan dag 23. janúar s.l. um lýðræði og tengdi það við heimsmarkmiðin. Nemendur veltu fyrir sér hugtakinu lýðræði og hvernig það birtist í ýmsum myndum s.s. í friði og réttlæti, frelsi, menntun, sögunni og Íslandi. Einnig var farið yfir ýmsar tímalínur tengdar efninu.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum varð UNESCO-skóli í lok síðasta árs og byrjar aldeilis vel með þessu metnaðarfulla og flotta verkefni.
Hefðbundinn skóladagur var brotinn upp og því engar formlegar kennslustundir í gangi þennan dag. Allir kennarar/starfsfólk og nemendur skólans tóku sig til og unnu að verkefnum dagsins um lýðræði. Nemendum var skipt í stöðvar, alls sex talsins, og hver stöð var með ákveðið málefni t.d. var ein stöðin teikni/meme/kahoot stöð á meðan önnur hét Unesco stöð. Hinar stöðvarnar voru: Hvað er lýðræði, Saga lýðræðis á Íslandi, Mannréttindi (og mismunandiupplifun á frelsi), Saga lýðræðiskosninga í Evrópu (tímalínur).
Skólinn bauð svo nemendum og starfsfólki upp á pizzur í hádeginu og fengu nemendur að keppa sín á milli í kahoot ásamt því að hengja upp plakötin sín og myndir um afrakstur dagsins til sýnis.
Dagurinn endaði svo á heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta ásamt Írisi Róbertsdóttur bæjarstýru Vestmannaeyja. Dagurinn þótti takast fram úr vonum og gaman að fá sjálfan forsetann í heimsókn og ræða um lýðræði. Þennan dag voru einmitt 50 ár síðan gosið í Heimaey var og var því tilvalið að hafa daginn öðruvísi og viðburðaríkan.

Til hamingju FIV með þetta flotta verkefni!