“Loftslagsbreytingar og átök valda gríðarlegri mannúðarþörf”

Kjartan Atli Óskarsson starfar sem aðstoðar verndarfulltrúi (e. Associate Protection Officer) hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR) í Juba, í Suður Súdan. Kjartan er uppalinn á Akureyri og hefur menntað sig í bæði stjórnmálafræði og sagnfræði. Kjartan Atli sótti um ungliðastöðu JPO (Junior Professional Officer Programme) í gegnum Utanríkisráðuneytið. Staðan er styrkt af ráðuneytinu en um ræðir sérfræðistörf sem ungum Íslendingum bjóðast á vegum Sameinuðu þjóðanna víða um veröld, svokallaðar. Um þessar mundir eru sex Íslendingar í slíkum störfum í Líbanon, Suður Súdan, Kenía, Simbabve, Malaví og Sierra Leone.

Kjartan hefur starfað hjá UNHCR í eitt ár eða frá því í febrúar 2022, og í tilefni af því var tekið við hann viðtal um hans upplifun af starfinu.  

 

Kjartan Atli Óskarsson JPO í Juba, Suður Súdan

 

Hvers vegna valdir þú að vinna fyrir UNHCR? 

„Það sem mér fannst áhugavert við að vinna fyrir UNHCR var að stofnunin vinnur með málaflokk sem fer aðeins vaxandi. Ef litið er til fjölgunar flóttafólks og fólks sem er á flótta innan eigin lands á heimvísu, er ljóst að þarfir þessa fólks munu aðeins halda áfram að aukast. Staðan í málefnum flóttafólks er krefjandi og tel ég mig geta lagt mitt af mörkum í því mikilvæga starfi sem unnið er á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

 

Það sem mér þótti enn fremur áhugavert var að fá frekari innsýn í hvernig viðbrögð við mannlegri neyð virka – sér í lagi þegar að kemur að fólki sem er á flótta innan eigin lands (e. internally displaced persons) eða IDPs eins og þetta er kallað í daglegu tali. IDPs er fjarlægt hugtak fyrir einstakling frá Íslandi og því er það mikil áskorun að vinna í kringum þann málaflokk.  

 

Mér fannst því spennandi að fá tækifæri til að vinna í mannúðarmálum, sérstaklega á stað eins og Suður-Súdan. Ástandið í Suður-Súdan er töluvert frábrugðið því sem maður er vanur frá Íslandi – sem dæmi má nefna að það ríkir útgöngubann á starfsfólk Sameinuðu þjóðanna á kvöldin – og það má því með sanni segja að með því að koma hingað hafi ég stígið stórt skref út fyrir þægindaramann. 

 

Áður en ég hóf störf hjá UNHCR starfaði ég í áritunardeild og borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytis Íslands. Einn angi þess starf fólst í því að aðstoða íslenska ríkisborgara sem voru í neyð erlendis. Sú reynsla hefur eflaust kveikt þennan neista hjá mér að fara að starfa hjá UNHCR og hjálpa þeim sem eru í neyð.“ 

 

Kjartan Atli Óskarsson ásamt fólki sem er á flótta innanlands, í Malakal Suður Súdan. ©Mila Julius Henry Lokuta

 

Hvernig myndir þú lýsa starfi þínu? 

Starfssvið mitt frá því að ég byrjaði hér hefur verið mjög fjölbreytt og hef ég fengið að skyggnast inn í mörg hlutverk hér hjá UNHCR. Í dag starfa ég sem teymisstjóri í teymi sem einbeitir sér að fólki sem er á flótta innan eigin lands. Meira en 2.2 milljónir manna eru á vergangi innan Suður-Súdan. Sá flótti stafar bæði af átökum og loftslagsbreytingum, sér í lagi flóðum. Suður-Súdan er í framlínu loftslagsvárinnar og glíma daglega við afleiðingar loftslagsbreytinga. Staðan í Suður-Súdan er þar af leiðandi erfið í ljósi þess að landið hefur valdið litlum skerf loftslagsbreytinga en ber hvað mestan kostnað þegar að kemur að afleiðingum þeirra. 

 

Teymið sem ég starfa hjá veitir svæðisskrifstofum UNHCR í Suður-Súdan stuðning í verkefnum sem snúa að fólki sem er á flótta innanlands. Það felur í sér reglubundnar heimsóknir í IDPs búðir og samstarf með framkvæmdaaðilum okkar við að bera kennsl á fólk sem er í sérstaklega viðkvæmum aðstæðum og tryggja að þau hafi aðgang að réttindum sínum. Þetta geta til dæmis verið fatlaðir einstaklingar, einstæðir foreldrar, aðallega konur og heimilishald þar sem börn þurfa að annast aldraða. 

 

Mannúðarþörfin í Suður-Súdan er gríðarleg, nauðungarflutningar eiga sér stað nánast daglega. Þegar að nauðungarflutningar eiga sér stað þarf UNHCR að bregðast hratt og örugglega við, í samstarfi við aðra samstarfsaðila sem starfa í mannúðarmálum. Í því felst að til að mynda að finna það fólk sem er á flótta, meta þarfir þess og veita því viðeigandi aðstoð. Þessi aðstoð getur verið í formi þess að útvega nauðsynjar, veita peningaaðstoð eða að leiðbeina þeim í átt að nauðsynlegri grunnþjónustu. 

 

Að vinna með fólki sem er á flótta innan eigin lands getur reynst töluverð áskorun í samanburði við að vinna með flóttafólki, þar sem umboð, lög og reglugerðir eru umtalsvert óskýrari. Fólk sem er á flótta innan eigin lands er eðli málsins samkvæmt innan landamæra síns eigin ríkis og lítur því að þeim stjórnvöldum sem eru þar við völd, sem þýðir að ríkið sjálft er ábyrgt fyrir velferð þeirra. Fólk á flótta innan eigin lands flytjast oft til svæða þar sem erfitt reynist fyrir okkur að veita mannúðaraðstoð og af því leiðir er þetta fólk á meðal viðkvæmustu hópa í heiminum.“ 

 

Verið að gefa föt í Juba. ©Kume Michael Koang

 

Hvaða upplifanir hafa reynst eftirminnilegastar í störfum þínum fyrir UNHCR? 

„Eftirminnilegustu augnablikin eru þegar að þú getur veitt aðstoð til þeirra sem eru í gríðar mikilli neyð. Í Upper Nile, í norðurhluta Suður-Súdan, brutust út átök í ágúst 2022 sem hafa leitt til þess að tugþúsundir manna hafa verið á flótta. Sem hluti af teyminu mínu hef ég þrisvar sinnum ferðast til Malakal til að styðja við svæðisskrifstofu okkar þar sem leiðir viðbragðsáætlun UNHCR á þessu svæði. Í fyrsta skipti þegar að ég fór þar var það tiltölulega stuttu eftir að átökin höfðu blossað upp og var í raun ótrúlegt að sjá hversu fljótt og fagmannlega UNHCR brást við erfiðu ástandinu. 

 

Að heimsækja mismunandi staði í Suður-Súdan er áhrifamikið og sjá allt það frábæra starf sem svæðisskrifstofur okkar eru að vinna er magnað. Þau starfa náið með fólki sem hefur upplifað erfiða hluti og þó það sé alltaf jafn erfitt að sjá alla eyðilegginguna og mannlegar afleiðingar átaka, þá er það sama tíma traustvekjandi að sjá skjót og hispurslaus viðbrögð samstarfsfélaga minna hjá UNHCR.“ 

 


CCCM þjálfun í Adidiyang, Upper Nile ©Igor Latluk

 

Hverjar eru áskoranir sem felast í því að starfa fyrir UNHCR og hvernig hefurðu upplifað þær? 

Það felast þónokkrar áskoranir í því að starfa á því hættu svæði sem Suður-Súdan því miður er í dag. Í byrjun september heimsótti ég átaka svæði í Upper Nile og heimsóttum við stað við Hvítu-Níl sem heitir Adidiang. Þar hafði UNHCR, í samvinnu við aðra samstarfsaðila og stofnanir, aðstoðað við að koma upp búðum fyrir nokkur þúsund manns sem voru á flótta og höfðu neyðst til að flýja heimili sín. Aðeins viku síðar fékk ég svo þær fréttir að ráðist hefði verið á Adidiang og fólkið hefði neyðst aftur til að flýja fyrir lífi sínu. Þessi atburður undirstrikaði fyrir mér hversu viðkvæmt ástandið í Suður Súdan er fyrir fólk á flótta. 

 

Í desember á síðasta ári heimsótti ég líka þorp sem heitir Diel í norðurhluta Jonglei fylkis. Þar sá ég með eigin augum eftirköst árásar á þorp. Það var sláandi að sjá brunnin hús útum alls staðar og aldrað fólk sem sat í húsarústunum. Að sjá afleiðingar ofbeldis er alltaf óþægileg reynsla. 

 

Áskoranirnar framundan í Suður-Súdan eru miklar. Átökin Upper Nile ríkinu eru mjög alvarleg og engin lausn í sjónmáli. Stríðandi fylkingar hafa sérstaklega ráðist gegn óbreyttum borgurum, sem hefur ásamt auknum flóðum leitt til aukinna nauðungarflutninga. Upper Nile er birtingarmynd þess hversu gríðarlega mannúðarþörf loftslagsbreytingar og átök hafa skapað.“ 

 

Í Malakal ©Mila Julius Henry Lokuta

 

Félag Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir opnum kynningarfundi með Utanríkisráðuneytinu á þremur ungliðastöðum sem nú stendur til boða að sækja um. Kynningarfundurinn verður haldinn þann 22. febrúar, kl 12:00-13:15, og verður fundurinn rafrænn. 

Sótt er um á vef Stjórnarráðsins og er umsóknarfrestur til og með 15. mars 2023.

Nánari upplýsingar um ungliðaverkefni Sameinuðu þjóðanna og stöðurnar þrjár má finna hér, en áhugasöm geta einnig haft samband við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fyrir frekari upplýsingar.