Unnur Lárusdóttir nýr ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda

 

Unnur Lárusdóttir fulltrúi SÍNE (Sambands íslenskra námsmanna erlendis) var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda, á Sambandsþingi LUF (Landssambands ungmennafélaga) sem haldið var s.l. laugardag á Háskólatorgi. Sex voru í framboði, en næstflest atkvæði hlaut Sólveig Ástudóttir Daðadóttir, fulltrúi Q-félags hinsegin stúdenta, og mun hún því starfa sem varafulltrúi. 

Unnur Lárusdóttir, Geir Finnsson og Sólveig Ástudóttir Daðadóttir

 

Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda mun sitja í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf. Ungmennafulltrúinn skipar einnig sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ, en sendinefndin starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta.

Unnur Lárusdóttir stundaði nám við Háskólann í Amsterdam þar sem hún lagði áherslu á jafnréttismál og mannréttindi og útskrifaðist með gráðu í þverfaglegri stjórnmálafræði. Unnur hefur reynslu af réttindabaráttu ungmenna og hefur hún m.a. setið í stjórn hjá UN Women á Íslandi og sótt ráðstefnur á vegum European Youth Parliament. Unnur hefur einnig starfað við rannsóknir á mannréttindum og réttindum barna hjá UNICEF og félagsmálaráðuneytinu þar sem hún kannaði innleiðingu á barnvænu hagsmunamati. 

Unnur Lárusdóttir nýkjörin ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda

 

Skipun ungmennafulltrúa og þátttaka þeirra er samstarf Landssambands ungmennafélaga, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Utanríkisráðuneytisins. Unnur mun sækja 78. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september fyrir hönd ungs fólks á Íslandi.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi óskar Unni innilega til hamingju. Við hlökkum til að sjá þig í þessu virkilega spennandi hlutverki.

 

Heimild: LUF