„Mannkynið skautar á þunnum ís, og ísinn er að bráðna ansi hratt”

Samkvæmt nýjustu skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) sem kom út 20.mars eru fjölmargar skilvirkar og framkvæmanlegar lausnir til, sem geta dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og hjálpað okkur að aðlagast loftslagsbreytingum.

„Mannkynið skautar á þunnum ís, og ísinn er að bráðna ansi hratt. Líkt og skýrslan (Loftslagsnefndar SÞ (IPCC)) greinir frá, er mannkynið ábyrgt fyrir nánast allri hnattrænni hlýnun á síðastliðnum 200 árum”, sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna um útgáfu skýrslunnar.

Skaðleg áhrif loftslagsbreytinga bitna hvað mest á viðkvæmustu og fátækustu þjóðum heims. Hitastig jarðar hefur þegar hækkað um 1,1 gráðu á Celsíus frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Hækkun hitastigs jarðar er afleiðing ójafnrar og ósjálfbærrar orkunýtingar og landnotkunar, og brennslu jarðefnaeldsneytis í meira en eina öld. Öfgakennt veðurfar og náttúruhamfarir eru nú tíðari og verri, og hafa stofnað bæði náttúru og fólki á öllum svæðum heimsins í hættu.

Til að vinna gegn þessari skaðlegu þróun leggur IPCC til „loftslagsþolgóða þróun” (e. „climate resilient development”). Tillaga IPCC felur í sér samhæfðar aðgerðir til að takast á við og aðlagast loftslasgsbreytingum, sem og aðgerðir til að draga úr eða komast hjá losun gróðurhúsalofftegunda.

Sem dæmi; aðgangur að hreinni orku; kolefnissnauð rafvæðing, að stuðla að kolefnislausum eða kolefnissnauðum samgöngum; að bæta andrúmsloftið. Efnahagslegur ávinningur af bættri heilsu fólks vegna betra andrúmslofts myndi bæta upp kostnaðinn við að draga úr eða sneiða hjá losun.

Um skýrsluna sagði Hoesung Lee formaður IPCC: „þessi samantektar-skýrsla undirstrikar hversu bráðnauðsynlegt það er að grípa til metnaðarfyllri aðgerða og sýnir fram á að ef hafist er handa nú þegar, er hægt að tryggja öllum jarðarbúum lífvænlega og sjálfbæra framtíð”

The Muara Laboh Geothermal Power Project is helping advance Indonesia towards its renewable energy and climate change mitigation goals.
Muara Laboh jarðhitavirkjunin er skref nær markmiðum Indónesíu um endurnýjanlega orku og að draga úr loftslagsbreytingum. ADB/Gerhard Joren

Heimild: UN News og UNRIC