Flóttafólk frá Suður-Súdan kallar eftir friði

Fólk á flótta innan og frá Suður-Súdan vegna langvinnra átaka, og vegna vandamála tengdum loftslagskreppunni, kalla eftir friði.

Sawibu Rashidi og Jokino Othong Odok flúðu báðir heimili sín í Suður-Súdan í leit að öryggi. Það er áratugur frá því að átökin í heimalandi þeirra hófust, og að snúa aftur í örugga heimahaga er fjarstæður draumur, bæði fyrir Sawibu, sem flúði til nágranna Lýðveldisins Kongó, og fyrir Jokino sem leitaði skjóls á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan.

Jokino Othong Odok hefur búið á verndarsvæði í Malakal í áratug. Hann langar að snúa aftur heim til sín í Malakal bæ, en það er ekki öruggt. © UNHCR/Charlotte Hallqvist

 

Þeir eru ekki þeir einu sem eru í nákvæmlega þessari stöðu. Flóttamannakrísan í Suður-Súdan er ein sú mesta í Afríku, en 2,3 milljónir manna búa sem flóttafólk í nágrannalöndunum og 2,2 milljónir til viðbótar eru á flótta. Landið og íbúar þess þjást vegna borgarastyrjaldar og þrálátra þjóðernisátaka, en einnig vegna hrikalegra áhrifa loftslagsbreytinga, sem setja milljónir manna í neyð og gerir það óhugsandi fyrir fólk að snúa aftur heim.

Verndarsvæðið í Malakal er yfirfullt af fólki, og er fjöldinn orðinn þrefalt meiri en áætlað var að myndu búa í búðunum. © UNHCR/Charlotte Hallqvist

Í upplausnarástandinu sem myndaðist á flóttanum árið 2016 varð Sawibu viðskila við fjölskyldumeðlimi sína þegar hann flúði til Lýðveldisins Kongó. Sumir fjölskyldumeðlimir fundu öruggt skjól í Úganda, aðrir í Lýðveldinu Kongó. Sawibu býr nú á Biringi-svæðinu í Ituri-héraði í Kongó, ásamt eiginkonu og fimm börnum sínum. Þar starfar Sawibu sem Imam og leiðtogi samfélags flóttafólks. 

Hann bendir á að í suður-súdanska samfélaginu í Biringi sé góð samþætting fólks af ólíkum uppruna og trúarbrögðum – aðstæður sem hann vonast til að sjá á endanum í heimalandi sínu Suður-Súdan.

Sawibu Rashidi flúði frá Suður-Súdan árið 2016 og býr nú í Lýðveldinu Kongó í Ituri-héraði. Sawibu starfar þar sem Imam og leiðtogi samfélags flóttafólks.  © UNHCR/Joel Z Smith

 

“Ég er leiðtogi múslimsks samfélags frá Suður-Súdan, en hér í Lýðveldinu Kongó biðjum við öll á sama svæði, sem kongólskir múslimar. Á sama hátt biður kristið fólk úr mínu samfélagi með infæddu kristnu fólki, og við deilum sama markaði” segir Sawibu.

“Fólk þarf fyrst og fremst frið…”

“…Við erum öll á flótta undan átökum í Suður-Súdan, en nú hafa átökin í Ituri færst nær okkur” segir Sawibu. “Við heyrum af árásum og morðum, og það hræðir okkur mjög mikið, sérstaklega í ljósi bakgrunns okkar.”

Fjölskylduskýli á verndarsvæði í Malakal, þar sem Jokino Othong Odok hefur búið síðan árið 2013, í einungis nokkurra kílómetra fjarlægð frá heimili sínu. © UNHCR/Charlotte Hallqvist

 

Jokino og Sawibu eru með svipaðar framtíðarvonir. Þeir nefna báðir hve heitt þeir óska þess að geta nýtt hæfileika sína og getu til að byggja upp sín eigin samfélög og sitt eigið land. Sawibu segir að jafnvel fólk með góða menntun eigi erfitt með að finna vinnu. “Ef það væru ekki átök og það ríkti friður, myndum við geta snúið aftur heim og látið gott af okkur leiða til að stuðla að jákvæðri þróun samfélagsins [okkar].

Jokino er á sama máli: “Við lifum á góðvild annarra… en fólk með metnað til að lifa betra lífi vill ekki lifa svona.“

Hinsta ósk Jokino og Sawibu er að það verði friður svo fólk geti snúið aftur heim. “Við þurfum á friði að halda í Suður-Súdan, svo hver og einn geti notið lífsins, svo við þurfum ekki að fyrirlíta okkar eigið land” segir Sawibu. “Við viljum mest af öllu geta þótt vænt um landið okkar”.

 

 

Heimild: UNHCR