Mennta- og barnamálaráðherra afhent verkefni úr Heimsins stærstu kennslustund

Kristrún, verkefnastjóri UNESCO-skóla, Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra ásamt Írisi og Þresti við afhendingu niðurstaðna úr heimsins stærstu kennslustund þann 3. mars.

Tvö ungmenni frá Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, þau Íris Sævarsdóttir og Þröstur Flóki Klemensson, áttu fund með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í dag 3. mars og afhentu honum verkefni nemenda sem unnin voru í Heimsins stærstu kennslustund 6. des. 2022.

Fulltrúar ungmennaráðs heimsmarkmiðanna sem stjórnuðu kennslustundinni í desember ræða við ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins um niðurstöður hennar.
Kristrún, verkefnastjóri UNESCO-skóla, Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra ásamt Írisi og Þresti við afhendingu niðurstaðna úr heimsins stærstu kennslustund þann 3. mars.

Heimsins stærsta kennslustund (e. World Largest Lesson) er árlegt átak sem snýr að kennslu á heimsmarkmiðunum og er styrkt af UNESCO. Markmiðið er að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á loftslagsmál og hvernig ungt fólk getur lagt sitt af mörkum til að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum. Áherslan í ár er á raddir barna og heimsmarkmið nr. 4 um menntun fyrir alla.

Heimsins stærsta kennslustund var haldin í Landakotsskóla. Það voru nemendur í 8. bekk sem unnu verkefni er snýr að röddum barna og heimsmarkmiði nr. 4 – Menntun fyrir alla. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, tóku þátt í kennslustundinni og fluttu ávörp þar sem þau ræddu m.a. um mikilvægi menntunar og að hlustað sé á raddir barna. Agnes, Íris og Þröstur frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ stýrðu kennslustundinni.

Frá Heimsins stærstu kennslustund þann 6. desember sl. Eliza Reid forsetafrú ásamt nemendum í Landakotsskóla, Kristrúnu verkefnastjóra UNESCO skóla og fulltrúum Ungmennaráðs heimsmarkmiðanna, þeim Írisi, Agnesi og Þresti.

UNESCO-skólaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, en eitt forgangsmála verkefnisstjórnar sem vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi er að efla menntun og fræðslu þegar kemur að sjálfbærni, friði og mannréttindum.

UNESCO-skólar eru um 12 þúsund talsins um heim allan í yfir 180 löndum. Áhersluatriði þeirra eru friður og mannréttindi, heimsmarkmið SÞ, alþjóðasamstarf og starfsemi SÞ. UNESCO-skólar á Íslandi eru nú 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í innleiðingarferli.