Rammasamningur við Utanríkisráðuneytið undirritaður þann 13. apríl.

Nýr rammasamningur utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var undirritaður þann 13. apríl síðastliðinn af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og Völu Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóra félagsins. Um er að ræða samning sem gerður er til þriggja ára, á tímabilinu 2023-2025.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra ásamt Völu Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna við undirritun samningsins.

Á sama tíma og Félag SÞ skrifaði undir sinn samning voru rammasamningar undirritaðir við UNICEF og UN Women á Íslandi. Rammasamningar af þessu tagi skipta sköpum fyrir samtökin sem öll sinna veigamiklu kynningarstarfi á Íslandi um málefni SÞ, kynningu og fræðslu á heimsmarkmiðum SÞ og alþjóðalega þróunarsamvinnu.

„Það er afar ánægjulegt að sjá það traust sem stjórnvöld bera til félagsins, en þess má geta að á árinu fagnar það 75 ára afmæli sínu. Rammasamningurinn eykur því fyrirsjáanleika og tryggir grundvöll fyrir rekstur félagsins til áframhaldandi verkefna sem eru sífellt að færast í aukana,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

 

Utanríkisráðherra ásamt framkvæmdastjórum og stýrum samtakanna þriggja, UN Women, Félags SÞ og UNICEF. Á myndinni eru einnig fulltrúar frá samtökunum og starfsmenn ráðuneytisins.

 

Sjá frétt frá Utanríkisráðuneytinu um samninginn.