„Við heyrðum skothvelli og flúðum. Á þeim tíma var ég komin sjö mánuði á leið“ sagði Tantine, 30 ára fimm barna móðir frá Rusayo, í Norður-Kivu héraði, Lýðveldinu Kongó.
Þegar hópar vopnaðra manna réðust á þorpið hennar lagði hún á flótta með fjölskyldu sinni og leitaði skjóls í búðum fyrir fólk sem er á flótta vegna átakanna í Lýðveldinu Kongó. Tantine og fjölskylda hennar bjuggu í bráðabirgðatjöldum með um 113.000 öðrum sem voru einnig á flótta. Þetta er þó aðeins brot af þeim sem hafa flúið vegna óöruggs ástands og ofbeldis sem hefur geisað í héraðinu síðan í mars 2022, en um 800.000 hafa lagt á flótta frá héraðinu.
Tantine var ein af u.þ.b. 4.500 þunguðum konum í Rusayo-búðunum sem allar bjuggu nú í óviðunandi og óþriflegum aðstæðum, með nánast engan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Fljótlega eftir komuna í búðirnar ferðaðist hún rúma fjóra kílómetra á mótorhjóli til að komast á næstu heilsugæslustöð í skoðun.
Þrátt fyrir að hafa beðið í marga klukkutíma var hún send til baka án þess að vera skoðuð. Heilsugæslustöðin gat ekki lengur veitt barnshafandi konum fullnægjandi umönnun vegna þess að það var allt fullt.
Sem betur fer frétti Tantine stuttu seinna af hreyfanlegri heilsugæslustöð UNFPA sem var staðsett í búðunum. „Þegar ég frétti af læknastöð UNFPA fór ég þangað í staðinn og gat farið í fæðingarráðgjöf þar fyrir fæðingu.”
Lífshættuleg fæðing
Þegar Tantine byrjaði að fá samdrætti gat hún leitað aðstoðar á heilsugæslustöðinni.
„Ég var með verki og fór á heilsugæslustöðina. Tvær konur tóku á móti mér og komust fljótt að því hver staðan væri.“
„Þegar hún kom var hún með miklar blæðingar og hjartsláttur barnsins var ekki greinilegur. Hættumerkin voru augljós. Við þurftum að flytja hana eins fljótt og hægt var á læknastöð í Rusayo sem er betur útbúin.“
-Biyombe Marie Mupali, ljósmóðir sem var á vakt
Læknateymið gaf Tantine dreypi og innan hálftíma var hún á leið til Rusayo í sjúkrabíl sem Caritas samstarfsaðili UNFPA útvegaði, og í fylgd með henni var ljósmóðir frá hreyfanlegu heilsugæslustöð UNFPA.
Í Rusayo var strax tekið á móti henni og barn hennar fæddist seinna þann sama dag. Fæðingin var mjög erfið, en Tantine gat fengið viðeigandi sérfræðiaðstoð þökk sé skjótum viðbrögðum ljósmæðra heilsugæslunnar í Rusayo. Sú læknastöð er einnig styrkt af UNFPA og má þar finna viðeigandi læknisbúnað auk þess sem heilbrigðisstarfsfólki er boðið upp á starfsþjálfun.
Tantine þurfti að vera einn dag í viðbót í Rusayo áður en hún sneri aftur í flóttamannabúðirnar þar sem eiginmaður hennar og börn biðu hennar.
“Hreyfanlega heilsugæslustöðin er mikilvæg og nauðsynleg fyrir okkur. Þar geta barnshafandi konur á flótta fengið dýrmæta aðstoð. Ég nýtti mér aðstoðina sem er í boði á heilsugæslustöðinni áður en ég var flutt til Rusayo.“
Starfsemi UNFPA
Hreyfanlega heilsugæslustöðin var sett á laggirnar í mars 2023 til að mæta þörfum kvenna og stúlkna þegar kemur að kyn- og frjósemisheilbrigði. Þar starfa 5 einstaklingar – þar af þrjár menntaðar ljósmæður – sem hafa síðan þá meðhöndlað að meðaltali þrjár barnshafandi konur á hverjum degi.
Hingað til hefur teymið tekið á móti meira en 20 börnum á staðnum og flutt tæplega 100 konur á Rusayo heilsugæsluna. Meira en 200 konur hafa fengið fæðingarráðgjöf og 55 þolendur kynbundins ofbeldis hafa leitað til heilsugæslustöðvarinnar.
Almennir borgarar verða verst úti í átökunum, sérstaklega konur og börn sem hafa orðið fyrir áföllum og sofa nú örmagna undir berum himni, og eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi. UNFPA hefur komið upp hreyfanlegum heilsugæslustöðvum á fleiri stöðum, t.d. í Bulengo og Bujari, og hefur aðstoðað við að endurreisa tvö fæðingarheimili í héraðinu.
Frá upphafi ástandsins hefur verið komið í veg fyrir meira en 1.200 tilfelli mæðradauða og hefur heilbrigðisstarfsfólk aðstoðað við um 3.800 fæðingar. Um 4.000 einstaklingar hafa óskað eftir getnaðarvarnarráðgjöf víðs vegar í Norður-Kivu hérað og hefur um 20 tonnum af birgðum er varða frjósemisheilbrigði verið dreift um svæðið. Auk þess hefur um 5.000 sæmdarsettum (e. dignity kits) verið dreift, og yfir 2.200 þolendur kynbundins ofbeldis hafa leitað til og fengið læknisaðstoð frá UNFPA heilsugæslustöðvum á svæðinu.
Öll þessi inngrip voru möguleg þökk sé samstarfi UNFPA og stjórnvalda, staðbundinna félagasamtaka og fjármögnun frá Japan.
UNFPA mun halda áfram að aðstoða fólk víðsvegar um Lýðveldið Kongó og er að auka starfsemi sína á svæðinu svo hægt sé að til að tryggja konum og stúlkum í neyð áframhaldandi aðgang að ókeypis heilbrigðisþjónustu á næstu mánuðum.
Heimild: UNFPA