Eva Harðardóttir nýr stjórnarformaður félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Aðalfundur félagsins fór fram í gær 31.maí þar sem Eva Harðardóttir var kosinn nýr formaður.

Kosið var í nýja stjórn félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (United Nations Association of Iceland) á aðal­fundi þann 31. maí, og kom ársskýrsla út sama dag. Aðalfundurinn var haldinn í nýja húsnæði félagsins að Sigtúni 42, en kosið er til stjórnar á tveggja ára fresti.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur og alþingismaður lét af störfum sem stjórnarformaður eftir tveggja ára setu og fjögur ár í stjórn,en auk hennar létu Svava Jónsdóttir, Sveinn H. Guðmarsson, Böðvar Ragnarsson, Sigurður Ingi Sigurpálsson og Sólveig Þorvaldsdóttir einnig af stjórnarsetu.

Eva Harðardóttir var kosin nýr stjórnarformaður, en Eva hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2022. Eva starfar sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og lýkur doktorsnámi þaðan í haust með áherslu á hnattræna borgaravitund. Eva hefur einnig starfað fyrir UNICEF í Malaví við stefnumótun og innleiðingu verkefna á sviði félags-, mannréttinda og menntamála og hefur víðtæka þekkingu og reynslu af því að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

“Það er mikill heiður og ábyrgð fólgin í því að taka við sem formaður félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á 75 ára afmælisári félagsins. Ekki bara vegna þess að félagið á sér langa og merkilega sögu heldur einnig vegna þess að þau markmið sem sett voru við stofnun félagsins, árið 1948, eiga fullt erindi við okkur í dag: Að stuðla að alþjóðafriði, öryggi, samvinnu og samstarfi í anda hugsjóna Sameinuðu þjóðanna” segir Eva nýkjörinn stjórnarformaður.

Eva Harðardóttir nýkjörinn formaður félagsins ásamt Þórði Kristinssyni, nýkjörnum varaformanni.

Auk Evu skipa nýja stjórn félagsins þau Þórður Kristinsson sem gegnir stöðu varaformanns, Páll Ásgeir Davíðsson, Susan Christianen, Védís Sigrúnar Ólafsdóttir, Viktoría Valdimarsdóttir, Þorvarður Atli Þórsson og Unnur Lárusdóttir.

Frá vinstri: Páll Ásgeir Davíðsson, Védís Sigrúnar Ólafsdóttir, Eva Harðardóttir, Susan Christianen, Unnur Lárusdóttir og Þórður Kristinsson. Á myndina vantar Viktoríu Valdimarsdóttir og Þorvarð Atla Þórsson.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi þakkar fráfarandi stjórnarmeðlimum kærlega fyrir vel unnin störf síðastliðin ár í þágu félagsins.

Ársskýrsla félagsins er aðgengileg hér: https://un.is/2023/05/arsskyrsla-felagsins-er-komin-ut/