Dagana 12.-16. júní fór fram Háskóli unga fólksins í Háskóla Íslands en um er að ræða árlegan viðburð fyrir krakka 12-14 ára. Þessa viku fá krakkarnir sem sækja skólann að velja út fjölda glæsilegra námskeiða sem eru í boði og er skóladagurinn á milli 9:00-12:00 og hver kennslustund um 90 mínútur.
Háskólinn lét taka saman myndskeið yfir vikuna og má afraksturinn sjá hér:
Í ár tók Félag Sameinuðu þjóðanna þátt og hélt námskeiðið ‘Heimsmarkmiðin og ég’, þar sem krakkarnir fengu stutta kynningu á heimsmarkmiðum Sþ um sjálfbæra þróun, sáu nokkur myndbönd og tóku þátt í umræðum um vanda og lausnir í tengslum við þau. Þá var sérstaklega tekið fyrir það hvernig ungt fólk getur haft áhrif og einblínt var á krakkana sjálfa, hvað þau geta gert og hvað þau vilja gera. Þá voru unnin hópaverkefni þar sem nemendur völdu sér markmið og ræddu sín á milli lausnir og ráð til þess að tryggja að því tiltekna markmiði verði náð og hvað þeim þykir skipta máli í tengslum við það.
Námskeiðin sem haldin voru um markmiðin voru átta talsins þessa vikuna og voru troðfull af áhugasömum nemendum sem höfðu sterkar skoðanir og áttu sér stað afar skemmtilegar umræður. Brot af þeim verkefnum sem unnin voru af nemendunum má sjá hér að neðan.