Stjórnvöld hafa sent landrýniskýrslu Íslands (e. Voluntary National Review) til Sameinuðu þjóðanna.
Fjögur ár eru síðan Ísland kynnti fyrstu landrýniskýrslu um stöðu innleiðingu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og er þetta því í annað skipti sem stjórnvöld senda slíka skýrslu til Sþ. Að þessu sinni leiddi félag Sameinuðu þjóðanna stóran hluta í skýrslunni þar sem svo kallað stöðumat borgarasamtaka (e. Civil Society Assessment) var unnið með 55 frjálsum félagasamtökum samhliða stöðumati stjórnvalda á öllum sautján heimsmarkmiðnum.
Víðtækt samráð var við gerð skýrslunnar en auk stöðumats borgarasamtaka er í henni að finna kafla skrifaða af ungmennaráði heimsmarkmiðanna, ungmennafulltrúa Íslands hjá Sþ á sviði sjálfbærrar þróunar, Sambandi Íslenskra sveitarfélaga,og einnig umfjöllun um smitáhrif Íslands sem unnin var af Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands.
Samstarfið við samtökin sem tóku þátt gekk vonum framar en ferlið hófst í janúar og voru lokadrög tilbúin í mars. Samtökin völdu sér markmið sem þau höfðu sérfræðiþekkingu á og skráðu sig í 9 vinnuhópa þar sem fyrirfram ákveðin markmið voru unnin saman.
Stjórnvöld fengu gula spjaldið frá borgarsamtökum í stöðumati sínu og það rauða í fjórum markmiðum. Augljóst er í skýrslunni að mikill munur er á stöðumati stjórnvalda og svo hins vegar borgarasamtaka. Margt hefur þó áunnist frá fyrstu landrýniskýrslunni en borgarasamtök telja að stjórnvöld eigi enn talsvert í land í mörgum markmiðum. Þá var hávær rödd þeirra um að ávallt verði að tryggja aðkomu og samráð við borgasamtök í stefnumótun stjórnvalda en þar þykir vera mikill skortur á.
Sem stendur er skýrslan aðeins aðgengileg á ensku en með haustinu er áætlað að hún fari í íslenska þýðingu. Lesa má skýrsluna hér.
Niðurstöður skýrslunnar verða kynntar á ráðherrafundi (e. High Level Political Forum) í Sþ í New York þann 18.júlí næstkomandi. Vala Karen, framkvæmdastjóri félagsins verður hluti af íslenskri sendinefnd og mun flytja ávarp fyrir hönd borgarasamtaka. Þá munu íslensk stjórnvöld einnig standa að svokölluðum hliðarviðburði í tengslum við ráðherrafundinn um smitáhrif sem auglýstur verður von bráðar.