Ráðherrafundur Sþ (e. HLPF) í New York 10-19. júlí

39 lönd og Evrópusambandið munu kynna landrýniskýrslur sínar að þessu sinni (e.  Voluntary National Review, VNR) og aðgerðirnar sem þau grípa til til að koma markmiðunum á framfæri á árlegum Ráðherrafundi Sþ um sjálfbæra þróun (e. High Level Political Forum) sem haldinn er í New York frá 10. til 19. júlí.

Ísland hefur sent út sína aðra landrýni (fyrsta var send árið 2019) en vanalega senda aðildaríki slíka skýrslu til Sþ á fjögurra ára fresti, eða um þrisvar sinnum á tíma heimsmarkmiðanna sem gilda frá 2016-2030.

Sendinefnd Íslands fer út til New York undir lok þessarar viku og mun kynna landrýnina þann 18. júlí næstkomandi klukkan 19:05 á íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með í beinu streymi í link sem settur verður inn á viðburðinn hér: https://www.facebook.com/events/857528628698545 en einnig er hægt að fylgjast með inn á UN Web TV: https://media.un.org/en/webtv

Mælendur í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þann 18. júlí verða:

  •  Eggert Benedikt Guðmundsson, leiðtogi sjálfbærrar þróunar hjá forsætisráðuneytinu
  •  Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar
  •  Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem fulltrúi borgarasamfélagsins (e. civil society)

Í skýrslunni er fjallað um innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi. Þar er einnig umfjöllun um smitáhrif (e. spillover effects) Íslands, sem unnin var af Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands. Þar er átt við þau áhrif sem aðgerðir innanlands geta haft á getu annarra landa til þess að ná heimsmarkmiðunum. Stjórnvöld munu standa fyrir sérstökum hliðarviðburði um smitáhrif í tengslum við ráðherrafundinn í New York í júlí.

Í skýrslunni er að finna stöðumat stjórnvalda sem nálgast má á mælaborði á vefsíðu heimsmarkmiðanna á Íslandi hér: https://www.heimsmarkmidin.is/forsida/maelabord/

Til samanburðar er í skýrslunni einnig stöðumat frjálsra félagasamtaka, sem er nýjung frá því að fyrsta skýrslan var birt árið 2019 og var sú vinna einmitt leidd áfram af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Skýrslan er afrakstur víðtæks samráðs og samstarfs ýmissa hagaðila og var skrifuð af samráðsvettvanginum Sjálfbæru Íslandi. Í henni er einnig að finna kafla sem skrifaðir voru af Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Skýrsluna má nálgast í gagnvirku formi hér: https://www.heimsmarkmidin.is/vnr2023 ATH! Aðeins er hægt að nálgast enska útgáfu eins og er.

Herferð í tengslum við heimsmarkmiðin hefur verið hleypt af stokkunum og munu þau fá mikið vægi í allri kynningarstarfsemi Félagsins, sem og Sameinuðu þjóðunum út júlí mánuð. Lesa má meira um málið á vefsíðu Upplýsingaskrifstofu Sþ fyrir V-Evrópu: https://unric.org/is/sameinudu-thjodirnar-hvetja-til-brynna-adgerda-i-thagu-heimsmarkmidanna/

Þar sem árið 2023 markar miðpunkt innleiðingar heimsmarkmiðanna mun þessi vettvangur Ráðherrafundarins í ár gegna lykilframlagi undirbúnings fyrir svokallaða heimsmarkmiðaráðstefnu (e. SDG Summit) sem haldin verður 18.-19. september á þessu ári. Þemað verður “Að flýta fyrir bata eftir heimsfaraldurinn (COVID-19) og framkvæmd Agenda 2030 um sjálfbæra þróun á öllum stigum”. Markmiðin í brennidepli verða:

  • markmið 6 um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu,
  • markmið 7 um hreina orku á viðráðanlegu verði,
  • markmið 9 um iðnað, nýsköpun og innviði,
  • markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög og
  • markmið 17 um samstarf um heimsmarkmiðin