Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði um heimsmarkmiðin sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í Salaskóla þann 10. ágúst sl.
Mikill áhugi var á námskeiðinu og færri sem komust að en vildu. Þetta er í þriðja sinn sem námskeiðið er haldið en kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi.
,,Þetta var frábær og metnaðarfullur hópur kennara sem gerir sér grein fyrir mikilvægi heimsmarkmiðanna. Það er gott að sjá hversu vel skólarnir eru að taka við sér varðandi heimsmarkmiðin,” segir Kristrún.
Á námskeiðinu, sem ætlað er fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, var farið í merkingu og markmið heimsmarkmiðanna og hvernig þau eru hugsuð út frá kennslu. Þá fengu þátttakendur í hendurnar tæki og tól til að nýta með markvissum hætti í kennslu.
Mikil ánægja var með námskeiðið, en nokkrar þeirra athugasemda sem félagið fékk sendar má lesa hér að neðan.
,,Mér fannst námskeiðið mjög vel uppsett og vel skipulagt. Það var upplýsandi og mun hvetja mig áfram til góðra verka. Takk!”
,,Mér fannst námskeiðið mjög áhugavert, skemmtilegt og fræðandi. Ég hef lengi verið á leiðinni að kynna mér betur heimsmarkiðin og þetta námskeið var einmitt það sem mig vantaði.”
,,Takk kærlega fyrir áhugvert og vel skipulagt námskeið sem kveikti margar hugmyndir.”