UNGA78: „Aðgerðir er það sem heimurinn þarfnast“

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, gaf leiðtogum heimsins skýr skilaboð á dögunum, en í næstu viku munu þeir streyma til New York þegar ráðherravika allsherjarþingsins hefst:

„Þetta er ekki tíminn til að setja sig í stellingar. Aðgerðir er það sem heimurinn þarfnast.“

78. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kemur nú saman til að meta stöðu heimsmála og starfa í þágu almannaheilla. Á blaðamannafundi lagði Guterres áherslu á mikilvægi málamiðlanna fyrir betri framtíð og sagði jafnframt að „pólítík, diplómatísk samskipti og árangursrík forysta væri allt tegundir málamiðlana“. Benti hann þá sérstaklega á harðnandi neyðarástand í loftslagsmálum, ný átök sem geisa, hækkandi framfærslukostnað og vaxandi ójöfnuð.

“Fjölpóla heimur er í mótun. Það getur verið jafnvægisþáttur, en fjölpóla heimur getur einnig leitt til vaxandi spennu, sundrungar og enn verra ástands.”

UN Photo

Til að festa í sessi þessa nýju og flóknu heimsmynd þurfa að vera sterkar og endurbættar stofnanir sem byggja á sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalögum. Þá lagði Guterres áherslu á að í komandi ráðherraviku væru leiðtogafundir sem fjalla meðal annars um svið loftlagsmála, heilsu og fjárfestinga í þróunarmálum en einnig verður leiðtogafundur heimsmarkmiðanna (e. SDG Summit). Nú eru átta ár frá því að markmiðin voru samþykkt og er þessi viðburður hálfleikur og snýr að því hvernig hægt sé að tryggja framgang og björgun þeirra.

„Fólk leitar til leiðtoga sinna að leiðinni út úr allri þessari óreiðu. Andspænis þessu og fleiru er landfræðileg stjórnmálaskipting að grafa undan getu okkar til að bregðast við,“ sagði Guterres. Í lokaorðum sínum sagði hann að ef framtíð friðar og velsældar sem byggist á jöfnuði og samstöðu eigi nokkurntímann að vera möguleg, að þá beri leiðtogar heimsins sérstaka ábyrgð á að ná málamiðlunum við að hanna sameiginlega framtíð okkar og að næsta vika í New York sé rétti staðurinn til að byrja.

 

Samantekt unnin úr frétt SÞ