Félagið leiddi samtal UN félaganna og ungmenna við Aminu J. Mohammed, vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Þann 9. október stýrði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi samtali UN félaganna á Íslandi (UN Women, UNICEF og Félag SÞ) við vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Aminu J. Mohammed.

UN Photo/Pier Paolo Cito – Vala Karen, framkvæmdastjóri Félagsins tekur hér á móti Aminu J. Mohammed, vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Mannréttindahúsinu þann 9. október 2023.

Fundurinn var haldinn í Mannréttindahúsinu, þar sem skrifstofur Félagsins og UN Women eru. Ungmennaráð UN Women, ungmennafulltrúi í stjórn UNICEF og ungmennafulltrúar Íslands hjá SÞ voru sérstakir gestir fundarins, en hann snerist að miklu leyti um merkingarbæra þátttöku ungs fólks, hvort sem um ræðir á vettvangi innanlands eða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að ákvarðanatöku og áhrif ungs fólks í tengslum við slík ferli. Í samtalinu mátti greina mikinn samhug og vilja til þess að taka hugrökk skref í átt til innleiðingar á heimsmarkmiðum SÞ. 

UN Photo/Pier Paolo Cito – Mikil ánægja ríkti hjá hópnum eftir uppbyggilegt og áhrifamikið samtal ungs fólks til áhrifa.

 

UN Photo/Pier Paolo Cito – Fulltrúar Félagsins, UN Women og UNICEF og ungmennafulltrúar ásamt Aminu J. Mohammed.

Umræðan snerti á fjölmörgum málefnum sem ungt fólk í dag telur mikilvægt að huga að, líkt og merkingarbæra þátttöku ungmenna og aðkomu þeirra að ákvarðanatökum en Amina benti á mikilvægi þess að ungt fólk fengi einnig mikilvægan sess í innleiðingu og útfærslu þeirra markmiða sem nú þegar hefur verið samið um að hrinda í framkvæmd. Þá lagði hún áherslu á að huga að því með hvaða hætti við gætum skapað öruggt og friðsælt nærsamfélag þar sem fólk ætti þess kost að ræða saman um þær áskoranir sem það mætir í sínu daglega lífi. Umræðan um loftslagsmál var áberandi en Amina benti á mikilvægi þess að Íslendingar sem og aðrar smáþjóðir sem hafa mikilvæga rödd í alþjóðasamfélaginu haldi áfram að vekja athygli á þeim málum sem snerta slíkar þjóðir og ekki hvað síst á þeim árangri sem náðst hefur í baráttu við loftslagsvandann.  

Þá benti hún einnig á mikilvægi þess að huga að jöfnuði á öllum sviðum og spyrja gagnrýninna spurninga á borð við hvernig lítur friður út í augum ungs fólks, hvernig lítur jöfnuður á milli norðurs og suðurs út í augum ungs fólks – hvernig heimur er betri heimur? Amina talaði um samábyrgð og mikilvægi þess að hugsa ekki um dreifingu gæða eingöngu í formi aðstoðar eða ölmusa við lönd í suðri heldur fyrst og fremst á grunni jöfnuðar og samábyrgðar.   

Unga fólkið á fundinum spurði Aminu einnig út í hvaða leiðir þeim væru færar í að koma hugmyndum sínum á framfæri og hvernig Ísland gæti haldið áfram að styðja við og styrkja alþjóðasamstarf. Amina benti á ýmsa möguleika í tengslum við menntun og nærumhverfi ungs fólks. M.a. benti hún hópnum á Youtube myndbönd Lilly Singh sem talar á mannamáli um heimsmarkmiðin við annað ungt fólk. 

Lilly Singh – YouTube