Unnur Lárusdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda á Sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 25. febrúar 2023 sl.
Hefð er fyrir því að ungmennafulltrúi á sviði mannréttinda sé hluti af sendinefnd Íslands sem fer á ráðherravikuna í upphafi nýs allsherjarþings í september eða þegar nefndarvinnan hefst. Unnur fór til New York nú í september í ráðherravikunni við upphaf 78. allsherjarþingsins (e. UNGA78), þar sem leiðtogar ríkja flyktust að, en um er að ræða eina stærstu diplómatísku viku ársins. Talsvert mikið var um stærri fundi sem Unnur hafði tækifæri til að sækja, en allir sneru að mikilvægum málefnum sem alþjóðasamfélagið þarf að takast á við í sameiningu, líkt og efling fjáröflunar til þróunarmála, útrýming berkla, sjálfbær þróun samfélaga o.fl.
Þegar Unnur var spurð hvað stóð upp úr í ferð sinni á UNGA78 þótti henni erfitt að nefna eittvað eitt sem stæði upp úr en sagði að fundur UN Women hafi snert sig djúpt.
Fundurinn varðaði ‘kynja aðskilnaðarstefnu’ (e. Gender Apartheid) í Afghanistan þar sem rætt var um mannréttindi kvenna í landinu og hvernig konur og stúlkur þar upplifa daglega mannréttindabrot. Það snerti mig djúpt bæði að hitta konur sem sögðu frá sinni eigin reynslu af mannréttindabrotum, og að sjá hvernig alþjóðasamfélagið kom saman og ræddi málefnið. Mér þótti mikilvægt að sjá það með berum augum, fólk að koma saman allstaðar að úr heiminum og sýna samstöðu.
Þá sagðist Unnur hafa verið upplifun út af fyrir sig að fá að sitja opnun almennrar umræðu (e. General Debate) og yfir höfuð að vera stödd í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna umkringd fólki sem deilir sömu ástríðu og hún sjálf. Unnur brennur fyrir málefnum mannréttinda og jafnréttis og hefur lengi gert en hún hefur meðal annars verið í stjórn ungmennaráðs UN Women á Íslandi og starfað fyrir UNICEF á Íslandi.
Vera Unnar í New York stóð yfir í rúma viku en fyrir utan stranga fundarsetu í ólíkum sölum og herbergjum Sameinuðu þjóðanna fékk hún tækifæri til þess að hitta norræna kollega sem einnig gegna stöðu ungmennafulltrúa hjá SÞ. Samstarf þeirra á milli telur hún vera bæði mikilvægt og nauðsynlegt svo hægt sé að bera saman bækur sínar, ræða upplifun og ólík tækifæri, þá sérstaklega til framtíðar svo hægt sé að tryggja raunverulega inngildandi þátttöku ungs fólks og að Norðurlönd hafi sterka rödd saman. Þegar Unnur var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og UNGA telur hún mikilvægt að stjórnvöld hugi vel að aðkomu sem slíkri og tryggi ungmennafulltrúum raunverulegt sæti við borðið.
Almennt er aðkoma ungs fólks að málefnum sem þau varða mikilvæg og ætti þátttaka ungs fólks að vera enn betur tryggð hér á landi. Hvað UNGA varðar og þá sérstaklega ráðherravikuna að þá átta ég mig á því að það það sé mjög erfitt að tryggja almenna þátttöku ungmennafulltrúa á þeim tímapunkti og á það ekki endilega alltaf við en hvað UNGA almennt varðar er nauðsynlegt að rödd ungs fólks heyrist þegar ólík málefni eru rædd, þá sérstaklega jafnréttismál, mannréttindi og sjálfbærni og mark sé tekið á þeirri rödd.
Hvað varðar aðkomu ungs fólks í ákvarðanatöku, hvort sem á við um á Íslandi og/eða á alþjóðavísu sagði Unnur að nauðsynlegt væri að auka skilning í samfélaginu um það hvers vegna þátttaka ungs fólks sé nauðsynleg og að brjóta þurfi niður þá hugmynd að börn og ungt fólk hafi ekki nóg fram að færa og búi ekki yfir nægilegri reynslu svo hægt sé að taka mark á hugmyndum og ráðleggingum þeirra.
Yfir heildina litið er bara mikilvægt að líta til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðanna og átta sig á því að það er verulega takmarkað hvaða árangri hægt er að ná ef unga fólkið sem mun þurfa að takast á við áskoranir framtíðarinnar, eru ekki höfð með í samtalinu um þeirra framtíð.
Undir lokin nefnir Unnur það að allar breytingar taki tíma og eigi réttilega að gera það svo þær séu gerðar af réttum ástæðum og skili raunverulegum árangri. Hins vegar sé mikilvægt að skoða ekki alltaf bara hversu langt við erum komin í okkar vegferð, heldur hversu langt við viljum fara og að þar geti Ísland verið leiðandi, sem fyrirmynd fyrir önnur ríki. Halda þurfi áfram að tryggja að ekki aðeins rödd ungs fólks heyrist og sé tekið mark á henni, heldur einnig allra minnihlutahópa, jaðarsettra og þeirra sem búa ekki við þau forréttindi að geta ýtt á eftir breytingum eða tjáð sig opinberlega um málefni sem þau varða.