Mér þótti gott að fá áminningu um að víkka sjóndeildarhringinn, hlusta og skilja sjónarmið og raunveruleika annars fólks og þannig styðja hvort annað af einlægni, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði mennta, vísinda og menningar

Isabel Alejandra Diaz var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar á fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 24. janúar sl.

Isabel býr yfir mikilli reynslu af réttindabaráttu ungs fólks en hún hefur setið fyrir hönd Röskvu í háskólaráði Háskóla Íslands auk þess að sinna hlutverki forseta Stúdentaráðs HÍ 2020-2022. Þá hefur hún starfað sem verkefnastjóri Tungumálatöfra, námskeiðs fyrir börn með ólíkan menningarbakgrunn til að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu ásamt því að hafa setið í hinum ýmsum hópum á sviði mennta, menningar- og félagsmála.

Isabel er fyrsti íslenski ungmennafulltrúinn á sviði mennta, vísinda og menninga, en samhliða hlutverki sínu sem ungmennafulltrúi situr hún einnig í íslensku UNESCO nefndinni. Isabel flaug til Parísar nú í nóvember sem hluti af íslenskri sendinefnd til þess að sækja 42. aðalráðstefnu UNESCO en hún er öllu jafna haldin annað hvert ár. Í sömu ferð, sótti hún einnig ungmennaþing UNESCO (e. UNESCO Youth Forum) þar sem þema þingsins í ár var umhverfis- og loftslagsmál; samfélagsleg áhrif loftslagsvárinnar og nauðsyn þess að tryggja réttlátt umskipti tækifæra og byrða loftslagsbreytinga.

Þegar Isabel var spurð hvað stóð upp úr í ferð sinni til Parísar nefndi hún opnunarhátíð ungmennaþingsins. Þar hafi nokkrir aktívistar verið fengnir til að ávarpa þingið, þ.á.m. Alice Pataxó frá Brasilíu sem fjallaði um loftslagsmál frumbyggja í heimalandinu og Jan Kariel frá Filippseyjum sem lifði af ofurfellibylinn Yolanda árið 2013.

Það var í raun ótrúlegt að hlýða á frásagnir þessara aktívista sem hafa sjálf mætt áskorunum vegna loftslagstengdra hamfara og upplifað afleiðingarnar á eigin skinni. Það var mikill drifkraftur í þeim og framsögur þeirra einskonar vitnisburður um það mikilvæga hlutverk sem ungt fólk fer með í baráttunni gegn loftslagsvánni; til að knýja fram sanngjörn umskipti og standa vörð um sameiginlega framtíð okkar

Ótal mörg ungmenni voru viðstödd þingið en samtals voru í kringum 166 ungmennafulltrúar frá yfir 147 löndum að sögn Isabel. Ungmennaþing UNESCO hefur það að markmiði að veita ungu fólki með ólíkan bakgrunn vettvang til þess að ræða málefni sem eru í brennidepli, deila reynslu sinni og hugmyndum og jafnframt skapa öruggt rými til rökræðna. Ennfremur nefndi hún að mörg þeirra ungmenna sem saman voru komin þarna hefðu verið sammála um að vettvangurinn veitti einstakt tækifæri til þess að stuðla að samstöðu í loftslagsbaráttunni.

Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði menntunar, vísinda og menningar á aðalráðstefnu UNESCO í nóvember 2023, með sendinefnd Íslands.

Þegar Isabel var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og þessum sagði hún aðkomu þeirra nauðsynlega og lykilatriði í því að fá heildstæðari sýn á það hvernig ungt fólk getur beitt sér, sýnt frumkvæði og háttað samstarfi milli landa, stofnana eða samtaka

Mér þótti gott að fá áminningu um að víkka sjóndeildarhringinn, hlusta og skilja sjónarmið og raunveruleika annars fólks og þannig styðja hvort annað af einlægni.

Að lokum segir Isabel mikla vigt fylgja aðild Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum:

Það skiptir sköpum að Ísland eigi sína fulltrúa, og þar eru fulltrúar í málefnum ungs fólks engin undantekning. Það er okkur til hagsbóta að miðla þekkingu áfram þar sem við
getum eða höfum tök á, en einnig að sækja okkur hana frá öðrum og nýta til góðra verka. Hvernig það gengur fyrir sig eða ber árangur fer svo náttúrulega alfarið eftir því hversu móttækileg stjórnvöld í hverju landi fyrir sig eru. Það breytir því ekki að hlutverk okkar ungmennafulltrúa er að vera rödd gagnvart þar til bærum stjórnvöldum enda verðum við að krefjast úrbóta fyrir réttlátara samfélag.

*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.