Heimsins stærsta kennslustund fór fram í Salaskóla í Kópavogi 5. desember síðastliðinn. Nemendur í 9. og 10. bekk tóku þátt í verkefninu sem í ár snýr að aðgerðum varðandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Íris Sævarsdóttir og Þröstur Flóki Klemensson, frá Barna- og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, stýrðu kennslustundinni, ásamt Kristrúnu Maríu Heiðberg, verkefnastjóra UNESCO-skóla á Íslandi. Isbel Alejandra Díaz, ungmennafulltrúi á sviði mennta, vísinda og menningar (UNESCO), ræddi við nemendur þar sem hún sagði m.a. frá starfi sínu og mikilvægi þátttöku barna og ungmenna. Nemendur í 4. bekk Salaskóla mættu í lok kennslustundarinnar og sungu nokkur vel valin jólalög við mikla hrifningu gesta.
Heimsins stærsta kennslustund (World Largest Lesson) er árlegt átak styrkt af UNESCO sem snýr að kennslu á heimsmarkmiðunum. Markmiðið er að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum.
Nemendur Salaskóla stóðu sig frábærlega, komu með margar góðar hugmyndir og tillögur.