Eftir miklar samningaviðræður alla vikuna bak við luktar dyr í öryggisráðinu þar sem fimmtán ríki hafa sæti, héldu sendiherrar áfram viðræðum fram á fimmtudagskvöld um nýjustu útgáfu af drögum að ályktun sem Sameinuðu arabísku furstadæmin skrifuðu þar sem kallað er eftir brýnum aðgerðum til að leyfa örugga og óhindraða afhendingu hjálpargagna til óbreyttra borgara á Gazasvæðinu. Bandaríkin sögðust myndu styðja nýjustu drögin ef textinn héldist óbreyttur, en búist er við atkvæðagreiðslu í dag, föstudag. Upphaflega var búist við niðurstöðu sl. miðvikudag.
Önnur ríki sem hafa sæti í öryggisráðinu hafa ítrekað reynt að fá Bandaríkin til að styðja við enn frekari endurskoðun ályktunarinnar sem vonast er til að hraði bæði flæði og afhendingu hjálpargagna. Miklar takmarkanir hafa verið á neyðaraðstoð og dreifing hjálpargagna hefur verið sífelld áskorun en stigvaxandi hungur er á svæðinu. Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, hefur ítrekað hversu nauðsynlegt það er að koma á tafarlausu og langvarandi vopnahléi til þess að binda enda á dráp á börnum og fjölskyldum á Gaza.
Bandaríkin beittu neitunarvaldi á síðustu útgáfu ályktunarinnar sem kom til atkvæðagreiðslu þann 8. desember sl., sem var þess valdandi að allsherjarþingið hélt umræður og atkvæðagreiðslu þar sem yfirngnæfandi hluti aðildarríkja kusu með vopnahlé þann 12. desember.
Þau tíu ríki sem nú hafa sæti í öryggisráðinu fyrir utan þau fimm ríki (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Rússland og Kína) sem hafa varanlegt sæti og afneitunarvald (e. veto power) eru: Albanía, Brasilía, Ekvador, Gabon, Gana, Japan, Malta, Mósambík, Sviss, Sameinuðu arabísku furstadæmin)
