Íslensk stjórnvöld þurfa að tryggja raunverulega inngildingu ungmenna, segir ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði loftslagsmála

Unnur Þórdís Kristinnsdóttir var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála á leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 26. apríl sl.

Unnur Þórdís starfar í sjálfbærnimálum hjá Controlant og hefur tekið þátt í ungmennastarfi CISV (Children International Summer Village) sem hefur það markmið að sameina þjóðir í átt að betri heimi. Síðustu ár hefur hún einnig tekið virkan þátt í starfi UAK (Ungra athafnakvenna) en hún var einmitt kjörin í stöðu ungmennafulltrúans fyrir hönd þeirra.

Unnur Þórdís er þriðji ungmennafulltrúinn sem hlotið hefur kjör á sviði loftslagsmála. Hún flaug til Dúbæ í lok nóvember sl. sem hluti af íslenskri sendinefnd til þess að sækja 28. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28 (e. Conference of the Parties) sem haldin er árlega, eða allt frá árinu 1995.

Unnur Þórdís, ungmennafulltrúi á sviði loftslagsmála á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Dúbæ dagana 30. nóvember-13. desember 2023.

Þegar Unnur Þórdís var spurð hvað standi upp úr í öllu ferlinu eftir kosningu nefnir hún viðburðina tvo sem hún hefur sótt fyrir hönd íslenskra ungmenna á árinu. Á fundi sem hún sótti í haust í UN City í Kaupmannahöfn þar sem fjöldi ungmennafulltrúa kom saman fékk hún frekari innsýn í megináherslur ungmenna í loftslagsmálum en þar var sérstök áhersla lögð á kynjajafnrétti í tengslum við loftslagvána. Þá mynduðu ungmennafulltrúarnir á sviði loftslagsmála í kjölfarið sér sameiginlega stefnu til þess að senda sterkari og skýrari skilaboð á loftslagsráðstefnunni í Dúbæ. Mikil samheldni um sterkari loftslagaðgerðir á meðal ungmenna einkenndi andann á ráðstefnunni að hennar mati, en fleiri þúsundir sóttu ráðstefnuna nú í desember, þar á meðal um 90 íslenskir fulltrúar líkt og kom fram í frétt Upplýsingaskrifstofu SÞ fyrir V-Evrópu nú í desember.

Aðkoma ungmenna á COP28 er gríðarlega mikilvæg þar sem framtíð þessa hóps er í húfi, það þarf að brúa bilið á milli aldurshópa til að mæta öllum skoðunum.

Að sögn Unnar er þátttaka ungs fólks mikilvæg á viðburðum líkt og COP, þá einkum í ljósi þess að í húfi er framtíð þeirra. Svo hægt sé að mæta öllum skoðunum sé einnig nauðsynlegt að brúa enn frekar bilið á milli aldurshópa, svo hægt verði að tryggja ólíkar þarfir þeirra til lengri tíma.

Á viðburðunum hitti ég ungmenni frá öllum hornum heimsins. Allt frá smáeyjalöndum í Kyrrahafi til landa í Asíu og Afríku. Einnig höfðu ungmennafulltrúar Evrópulandanna fundað reglulega í streymi yfir árið og hisst í persónu í Kaupmannahöfn til stefnumótunnar fyrir COP28.

Spurð út í það hvað stjórnvöld á Íslandi geti gert til þess að tryggja aðkomu ungmenna í ákvarðanatöku og stefnumótun, nefnir Unnur að það sé afar mikilvægt að Ísland dragi ekki úr núverandi fyrirkomulagi heldur tryggi og auki frekari aðkomu og þátttöku ungmenna, bæði hérlendis og í alþjóðastarfi. Ótal tækifæri séu fólgin í því og það muni aðeins efla og bæta ásýnd Íslands. Unnur telur þekkingu sína hafa aukist enn frekar síðastliðið ár en þó væru enn ákveðnir vankantar á hlutverki ungmennafulltrúa sem mættu betur fara til þess að tryggja raunverulega inngildingu ungmenna. Ekki sé einungis nóg að tryggja aðkomu ungs fólks, heldur þurfi að bæta raunverulega þátttöku og tækifæri þeirra til þess að hafa áhrif. Til dæmis nefnir hún að styrkja mætti ungmennafulltrúa verkefnið á þá vegu að hægt væri að þjálfa ungt fólk í samningaviðræðum með svokölluðu ‘Youth Negotiator Program’, þá geti sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum spreytt sig enn frekar, nýtt sína sérfræðikunnáttu og þannig nýst betur íslenskum sendinefndum.

Að lokum nefnir Unnur að ‘junior-senior kerfi’ ungmennafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum þyrfti að virkja enn frekar með því að tryggja fjármögnun til að senda báða fulltrúa á viðburði tengda málefnasviðum þeirra. ‘Junior-senior’ prógramið er nýtt kerfi sem LUF tók upp í fyrra til þess að tryggja betri handleiðslu nýkosinna fulltrúa, svo meðal annars sé hægt að tryggja samfellu verkefnisins og að þekking og reynsla fyrri fulltrúa nýtist þeim sem taka við keflinu.

Unnur ásamt hluta íslensku sendinefndarinnar, meðal annars forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur.

 

****Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.  
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.****