Í gær, þann 29. janúar var verðlaunaafhending í samkeppni ungs fólks um mikilvægi heimsmarkmiðanna fyrir mannréttindi og frið haldin í Mannréttindahúsinu að Sigtúni 42.
Eliza Reid, forsetafrú og formaður dómnefndar veitti verðlaun í gær, 29. janúar fyrir þær framúrskarandi tillögur sem bárust í keppnina. Þess má einnig geta að Eliza hefur um nokkurra ára skeið verið verndari Félags Sameinuðu þjóðanna. Samkeppnin var haldin í tilefni af 75 ára afmælis FSÞ í fyrra en um ræðir endurvakningu á samkeppni sem Félagið stóð fyrir um árabil í blaði Æskunnar.
Alls bárust tæplega 40 frábærar tillögur í keppnina af öllu landinu frá nemendum á grunn- og framhaldsskólastigi. Dómnefndin kaus að lokum með tveimur sigur tillögum og veitti þar að auki sex auka verðlaun.
Það voru þau Þröstur Flóki Klemensson, nemandi við Háteigsskóla með söguna sína um Anahi og Berglindi og Eybjört Ísól Torfadóttir, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík með smásögur sínar um heimsmarkmiðin sem báru sigur úr býtum í samkeppninni sem fjallaði um heimsmarkmiðin og mikilvægi þeirra fyrir mannréttindi og frið og í heiminum.
Þröstur Flóki og Eybjört Ísól unnu bæði flug og gistingu ásamt forráðamönnum sínum til New York með Icelandair að heimsækja fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna undir handleiðslu framkvæmdastjóra Félagsins, ásamt bókagjöf frá Angústúru.
Ída Kolbrá Heiðarsdóttir, nemandi við Giljaskóla á Akureyri hlaut sérstök aukaverðlaun dómnefndar fyrir frábæra tillögu, Hvað ef allt hverfur? Í vinning hlaut hún 50.000 vildarpunkta frá Icelandair, Bose hátalara frá Origo, leikhúsmiða fyrir tvo frá Borgarleikhúsinu og bókagjöf frá Angústúru.
Fimm önnur ungmenni hlutu auka verðlaun fyrir frábærar tillögur en það voru þau Aldís Ögmundsdóttir, nemandi við Hagaskóla fyrir texta sinn um ‘Mikilvægi heimsmarkmiðanna’, París Anna Bergmann, nemandi við Menntaskólann á Akureyri með söguna sína ‘Það er alltaf hægt að breytast’, Ágúst Páll Óskarsson, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík, með hugleiðinguna sína ‘Vongóðar vangaveltur’, Þórey María E. Kolbeinsdóttir, nemandi við Álftanesskóla með ‘Hugleiðing um heimsmarkmiðin’ og Lilja Sól Helgadóttir, nemandi Menntaskólans í tónlist með prósaljóðið sitt, ‘Kvíði’. Öll fengu að launum bókagjöf frá Angústúru og aðgang að Storytel.
Dómnefnd skipuðu þau Eliza Reid, forsetafrú, formaður dómnefndar og verndari FSÞ, Eva Harðadóttir, formaður FSÞ, Guðni Sigurðsson, fulltrúi Icelandair, Rán Flygenring, mynd- og rithöfundur og Ómar Azfar Valgerðarsson Chattha, fulltrú barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sþ.
Félag Sameinuðu þjóðanna þakkar öllum þeim sem sendu inn tillögur fyrir þátttöku í samkeppninni ásamt hamingjuóskir til allra verðlaunahafa. Þá fær dómnefnd sérstakir þakkir fyrir frábærlega vel unnin störf. Að lokum viljum við þakka því ómetanlega framlagi sem Icelandair gaf til samkeppninnar ásamt bókaforlaginu Angústúru. Origo, Borgarleikhúsið og Storytel fá einnig sérstakir þakkir.