Í ljósi sífellt versnandi aðstæðna á Gaza svæðinu, kallar Félag SÞ á Íslandi eftir því að íslensk stjórnvöld hefji greiðslur að nýju til UNRWA ásamt því að þau beiti sér fyrir tafarlausu og langvarandi vopnahléi svo mannúðaraðstoð berist fólki í neyð með öruggum hætti.
Frá hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október 2023 hafa yfir 30.000 Palestínumanna verið drepnir, þar af eru börn og konur í meirihluta. Rúmlega 1.9 milljón manna eru á flótta innanlands og hafast nú við á afmörkuðu svæði þar sem heilbrigðisaðstoð, hreint drykkjarvatn og matur er af lífshættulega skornum skammti. UNRWA er hryggjarstykkið í öllu mannúðarstarfi á Gaza og því mikilvægt að styðja við störf stofnunarinnar með beinum hætti líkt og Evrópusambandið hefur nú ályktað um með auknu fjárframlagi.
Við hvetjum meðlimi Félags SÞ og almenning í landinu til að sameinast í ákalli okkar til stjórnvalda um að styðja við starfsemi UNRWA og kalla eftir tafarlausu og langvarandi vopnahléi á svæðinu svo hægt sé veita fólki lífsbjargandi mannúðaraðstoð.