Íslensk ungmenni á ráðstefnu í Helsinki

Dagana 11-13. mars hélt hópur íslenskra ungmenna undir handleiðslu Félags Sameinuðu þjóðanna til Helsinki á opnunarráðstefnu norræns ungmennaverkefnis sem er samvinna milli Félags SÞ í Finnlandi, Svíþjóðar og Íslands. ‘Hæft ungt fólk hvetur til heildrænnar nálgunar á sjálfbærri þróun og grænum umskiptum’ er heiti verkefnisins sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.

Verkefnið miðar að því að ungmennin fræðist um sjálfbæra þróun og mannréttindi, eftirlits- og skýrslugjafarkerfi innan SÞ og í viðkomandi Norðurlöndum. Þá er lagt sérstaka áherslu á að ungmennin öðlist færni til þess að leggja markvisst af mörkum til landrýniskýrslna (Voluntary National Reviews), annað hvort sem hluta af skýrslu stjórnvalda eða í skuggaskýrslum borgarasamfélagsins, sem taka mið af stöðu innleiðingar heimsmarkmiðanna.

Í verkefninu koma saman ungmennafulltrúar Félaga SÞ, ungmennafulltrúar hjá SÞ og önnur virk ungmenni frá Finnlandi, Svíþjóð, Íslandi og Eistlandi auk fulltrúa í ungmennaráði Sama.

Á opnunarráðstefnunni fóru fjögur íslensk ungmenni, þar af voru þrjú sérstaklega valin úr hópi umsækjenda og svo ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar. Þá var Hafdís Hanna Ægisdóttir, formaður Sjálfbærnistofnunar hjá Háskóla Íslands með opnunarerindi um smitáhrif (e. spillover effect) og mælingar á þeim í norrænum samanburði og hvað hægt sé að gera til þess að minnka þau en Sjálfbærnistofnun HÍ framkvæmdi úttekt að beiðni stjórnvalda í fyrra á smitáhrifum Íslands fyrir landrýniskýrslu Íslands en hana má lesa hér.

Mynd: FSÞ. Hafdís Hanna fjallaði um smitáhrif í opnunarerindi sínu þann 11. mars sl.

Hátt í 40 ungmenni tóku þátt í opnunarráðstefnunni sem stóð yfir tvo daga. Meðal annarra erinda á dagskrá var sérstök umfjöllun Félags SÞ á Íslandi um stöðumat borgarasamfélagsins í skýrslu stjórnvalda sem kynnt var í júlí sl. hjá SÞ, aðkomu ungmenna í íslensku skýrslunni og hvað má gera betur, hvernig landrýniskýrslur geta haft áhrif á alþjóðlega stefnumótun og að lokum erindi um græn umskipti og áhrif þeirra á samfélag Sama í Finnlandi.

Næst verða tveir viðburðir haldnir í lok apríl og júní þar sem ungmennin fá frekari fræðslu, tæki og tól í hendurnar til þess að vinna áfram verkefnið og verður það haldið af Félagi SÞ í Mannréttindahúsinu og verða þær vinnustofur opnar áhugasömum ungmennum. Í haust lýkur svo verkefninu á lokaráðstefnu í Eistlandi.

Mynd: FSÞ / Frá vinstri: Þórhildur Söebech, Íris Sævarsdóttir, Sara Júlía Baldvinsdóttir (ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar) og Lára Portal.
Mynd: FSÞ / Fulltrúar úr ungmennaráði Sama í Finnlandi halda erindi.
Mynd: FSÞ / Sara Júlía, ungmennafulltrúi á sviði sjálfbærrar þróunar.