Ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis hvetur íslensk stjórnvöld til þess að tryggja og efla enn frekar raunverulega og inngildandi aðkomu allra ungmenna að ákvarðanatöku og stefnumótun sem þau varða

Birta B. Kjerúlf var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis á fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 26. apríl 2023. Þar að auki hefur hún setið í stýrihóp forsætisráðuneytisins um kynslóð jafnréttis en það fylgir kjöri í stöðuna.

Birta flaug til New York nú í mars þar sem hún var hluti af íslenskri sendinefnd sem sótti 68. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (e. CSW – Commission on the Status of Women) sem haldinn er árlega.  Meginþema fundarins í ár sneri að því að flýta fyrir því að jafnrétti kynjanna náist sem og valdefling kvenna og stúlkna með því að taka á fátækt, efla stofnanir og fjárfestingar með kynjasjónarmið að leiðarljósi. (e. „Accelerating the achievement of gender equality and the empowerment of all women and girls by addressing poverty and strengthening institutions and financing with a gender perspective“).

Ég er afar þakklát fyrir bæði tækifærin til að taka til máls og það eru einmitt þau augnablik sem standa upp úr þegar ég lít til baka. 

Viðvera Birtu á Kvennanefndarfundinum einkenndist að því að sitja opinbera viðburði, hliðarviðburði, efla tengsl við ungmennafulltrúa annarra landa og að tala máli íslenskra ungmenna en Birta fékk tvívegis tækifæri til þess að tala fyrir hönd íslenskra ungmenna, annars vegar á hliðarviðburði fastanefndar ESB hjá Sameinuðu þjóðunum um tengsl milli kynjajafnréttis og menntunnar og hins vegar á opinberum ungmennaviðburði CSW, þar sem ungmennafulltrúar aðildarríkjanna fóru með opinber erindi. Í báðum erindum lagði hún áherslu á aukið samráð við ungmenni á öllum stigum ákvarðanatöku, bakslag í réttindum hinsegin fólks og kvenna og mikilvægi þess að auka og bæta skilyrði til menntunar. Aðspurð hvað hafi staðið mest upp úr þessa viku sem hún var í New York, nefnir hún þessi tækifæri þar sem hún fékk að leggja lóð sín á vogaskálarnar.

Birta B. Kjerúlf er ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis.

Þó nokkur ungmenni voru viðstödd þingið að sögn Birtu en hún komst í samband við aðra ungmennafulltrúa áður en hún hélt út. Settu þau upp sín á milli sameiginlega spjallrás og skiptust þar á upplýsingum og ábendingum um allar hliðar fundarins. Þá nefnir hún að í gegnum þetta tengslanet hafi hún fengið tækifærið til að tala fyrir hönd íslenskra ungmenna á hliðarviðburði fastanefndar ESB hjá Sameinuðu þjóðunum. Á milli þess sem ungmennafulltrúarnir fóru saman á viðburði eða hittust í kaffipásum að þá gátu þau leitað til hvers annars þegar þau þurftu á stuðningi eða aðstoð að halda. Tengingar reyndust einstaklega dýrmætar fyrir Birtu, þá hafi sérstaklega stuðningur við undirbúning fundarins munað hana miklu og að hann muni nýtast vel áfram í undirbúningi fyrir 69. Kvennanefndarfundarins, sem marka mun 30 ára afmæli Pekingsáttmálans. Pekingsáttmálinn leit einmitt dagsins ljós árið 1995 á Kvennanefndarfundi SÞ í Peking í Kína en á þeim fundi var samþykkt yfirlýsing og aðgerðaáætlun í tólf köflum sem var ætlað að bæta stöðu kvenna í heiminum og markaði sáttmálinn mikil tímamót.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Birta B. Kjerúlf, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis og Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ.

Aðkoma ungs fólks er gríðarlega mikilvæg á viðburði sem þessum. Ungmenni hafa sérstökum hagsmunum að gæta, þar sem við erum þau sem munu taka á móti heiminum sem er í mótun einmitt núna. Enn fremur eru ungmenni einmitt þau sem hafa drifkraftinn, framsýnina og hugsjónina sem þarf til að stýra stefnunni í rétta átt. 

Þegar Birta var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og þessum sagði hún aðkomu þeirra gríðarlega mikilvæga og að mikilvægt sé að sofna ekki á verðinum, að háleit markmið til að drífa áfram framfarir í málaflokknum séu nauðsynleg. Þá minnti hún á að ungmenni í dag séu framtíðin og mikilvægt sé að ákvarðarnir sem teknar eru í dag séu hagsmunamál ungmenna sem tekið sé mark á. Sögulega hefur þáttaka ungmenna á Kvennaenefndarfundum ekki verið nægilega góð, og segir Birta að það sé einna helst vegna þess að fundurinn hafi ekki verið nægilega aðgengilegur ungmennum, og að opinber ungmennaviðburður hafi aðeins átt sér stað í fyrsta skipti fyrir tveimur árum síðan, á 66. Kvennanefndarfundinum. Engu að síður telur hún að ungmennastarf í tengslum við fundinn styrkist með hverju árinu og að það hafi alla burði til þess að hafa raunveruleg áhrif á jafnréttismál á alþjóðavísu, sé rétt farið að því að tryggja aðkomu og raunverulega þátttöku ungs fólks á viðburðum sem þessum.

Þá nefnir Birta að íslensk stjórnvöld geti bætt um betur og aukið enn frekar aðkomu ngmenna að ákvarðanatöku með því að gera stefnumótunarferlið gagnsærra, svo ungmenni, ungmennafélög og önnur almenn félagasamtök geti betur svarað sviptingum í stefnumótun.

Það er mikilvægt að stjórnvöld sæki til ungmenna oftar og af meiri alvöru. Eins og staðan er núna er samstarf og stuðningur stjórnvalda við ungmennafélög ekki nægur til að tryggja aðkomu íslenskra ungmenna að stefnumótunarferli um málefni sem snerta hagsmuni þeirra. Ég hvet íslensk stjórnvöld til að taka af skarið og setja fordæmi fyrir frekari og þýðingarmeiri inngildingu ungmenna í aðgerðum sínum, bæði innanlands og á alþjóðavísu.

Að lokum nefnir hún að blikur séu á lofti um afturför í tengslum við hagsmunastarf ungmennafélaga, en nýlega hafi Svíþjóð dregið úr starfi ungmennafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og Bretland hætt mikilvægum fjárhagsstuðningi til Landssambands ungmennafélaga þar í landi. ,,Þetta er auðvitað mannréttindamál í grunninn og að draga úr áhrifum ungs fólks og rödd þeirra er mikilvæg aðför að lýðræðinu”, segir Birta. Það sé mikilvægt að Ísland fari ekki sömu leið og hvetur hún íslensk stjórnvöld til þess að tryggja og efla enn frekar raunverulega og inngildandi aðkomu allra ungmenna að ákvarðanatöku og stefnumótun sem þau varða.

Sendinefnd Íslands á 68. Kvennanefndarfundi SÞ í New York í mars.
*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.