Þann 15. maí næstkomandi býður Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (e. United Nations Association Iceland) upp á vinnustofu fyrir ungmenni um mannréttindi og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.
Vinnustofan er fyrir öll ungmenni á aldrinum 16-30 ára sem hafa áhuga á mannréttindum og sjálfbærri þróun og jafnvel vinna í hagsmunagæslu í ungmennastarfi. Vinnustofan er líka fyrir þau sem vilja einfaldlega læra meira um hverjar skyldur ríkja eru í tengslum við grundvallar mannréttindi. Ennfremur mun vinnustofan veita ungmennum dýpri þekkingu og skilning á því hvernig heimsmarkmiðin tengjast mannréttindum og læra að nota ólík verkfæri til þess að meta stöðuna innan sinna ríkja.
Viðburðurinn hefst með kynningu frá Dönsku Mannréttindastofnuninni (e. Danish Institute for Human Rights). Þar verða kynnt verkfæri/tól, sem þróuð eru af stofnuninni sem hægt er að nota til þess að meta stöðu mannréttinda í tengslum við sjálfbæra þróun í hverju ríki fyrir sig. Verkfærin sem slík má einnig notast við í hagsmunagæslu ungs fólk til þess að þrýsta á stjórnvöld til þess að innleiða heimsmarkmiðin á Íslandi með tilvísun í grundvallar mannréttindi fólks. Vinnuhópar munu svo spreyta sig í að nota verkfærin með því að rýna í stöðu ólíkra markmiða á Íslandi, hvar þau standa og hvernig þeim miðar áfram út frá landrýniskýrslum, svokölluðum stöðuskýrslum sem aðildarríki skila frá sér til Sameinuðu þjóðanna.
Vinnustofan verður haldin milli 17:00-19:30 þann 15. maí í húsakynnum Félagsins, í Mannréttindahúsinu, Sigtúni 42, 105 Reykjavík. Hægt verður að taka þátt í persónu og rafrænt en mikilvægt er að skrá sig hér fyrir lok dags 12. maí.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.