Vinningshafar í samkeppni ungs fólks heimsóttu höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York

Á dögunum fóru vinningshafar í samkeppni ungs fólks til New York að heimsækja höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Þau Eybjört Ísól Torfadóttir, nemandi Kvennaskólans í Reykjavík og Þröstur Flóki Klemensson, nemandi Háteigsskóla báru sigur út býtum með sögum sínum um heimsmarkmiðin í tengslum við mannréttindi og frið í heiminum. Feður þeirra beggja ferðuðust með þeim sem forráðamenn ásamt Völu Karen, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Flogið var út að morgni sunnudags 21. apríl með Icelandair til New York. Næstu daga á milli þess sem ungmennin nutu þess að skoða sig um í borginni áttu þau fundi með fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, í höfuðstöðvum Barnahjálpar SÞ, UNICEF og enduðu í vettvangsferð um höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna með fulltrúa fastanefndarinnar.

Hjá UNICEF hittu ungmennin þær Lóu Magnúsdóttir og Sólrúnu Engilbertsdóttir sem báðar hafa starfað hjá samtökunum um margra ára skeið, meðal annars í Rúanda, Panama, Pakistan, Síerra Léone og Kenía. Rædd voru ólík verkefni Barnahjálparinnar frá upphafi um víða veröld sem og staða barna í dag.

Mynd / FSÞ – Lóa Magnúsdóttir, Eybjört Ísól, Þröstur Flóki og Sólrún Engilbertsdóttir.

Því næst hittu ungmennin fastafulltrúa Íslands hjá Sþ, Jörund Valtýsson og Guðrúnu Þorbjörnsdóttir starfsmann fastanefndarinnar. Jörundur fjallaði um málefni fastanefndarinnar á vettvangi SÞ og þau áherslumál sem eru í brennidepli nú, meðal annars undirbúning fyrir Leiðtogafund framtíðarinnar (e. Summit of the Future) sem haldinn verður dagana 22-23. september í höfuðstöðvunum á meðan UNGA stendur, stærstu diplómatísku viku heimsins þar sem allir leiðtogar heimsins mæta og ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ræddi hann ennfremur mikilvægi aðkomu ungs fólks og raunverulega þátttöku þeirra í málefnum eins mikilvægum og þeim er varða framtíðina og aukningu og sýnleika ungs fólks á viðburðum SÞ.

Mynd / FSÞ – Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi SÞ fór yfir áherslumálin þessi dægrin og ræddi við Eybjört og Þröst um aðkomu ungs fólks á alþjóðagrundvelli. Með honum sat fundinn Guðrún Þorbjörnsdóttir sem einnig starfar fyrir fastanefndina.

Eftir góðar samræður við fulltrúa fastanefndarinnar fylgdi Ágúst Flygenring hópnum að höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, þar sem saga byggingarinnar var krufin, sem og helstu minnisvarðar og salir voru þræddir. Hópurinn fékk að sjá frá fundi sem átti sér stað í allsherjarþinginu, þegar fundi lauk í öryggisráðinu, sal efnahags- og félagsmálaráðsins og að lokum undirbúning fyrir viðburð í sal gæsluverndarráðsins sem síðustu ár hefur mikið verið notaður fyrir viðburði tengda heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

Mynd / FSÞ – Þröstur Flóki, Ágúst Flygenring og Eybjört Ísól við fræg ummæli fyrrum aðalframkvæmdastjóra SÞ, hins sænska Dag Hammarskjöld.

Ferðin var afar vel heppnuð og mikil ánægja ríkti meðal hópsins með heimsóknina og þökkum við hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna fastanefnd Íslands kærlega fyrir að taka svo vel á móti öllum og aðstoðina við undirbúning heimsóknarinnar.

Þá þökkum við einnig Icelandair sérstaklega en þau gerðu það að verkum að hópurinn hafði tækifæri til þess að fljúga út og kynna sér betur þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer hjá Sameinuðu þjóðunum.

 

Meðfylgjandi eru fleiri myndir frá heimsókninni. 

Mynd FSÞ / Úr sal allsherjarþingsins eftir að fundi lauk.
Mynd / FSÞ – Þröstur Flóki, Eybjört Ísól og Jörundur Valtýsson.
Mynd / FSÞ – Vinningshafar ásamt starfsfólki fastanefndarinnar og fylgdarmönnum.