Pétur Hjörvar Þorkelsson er nýr verkefnastjóri kynningar- og fræðslu

Pétur Hjörvar Þorkelsson hef­ur verið ráðinn verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Alls sóttu 123 um starfið sem auglýst var á Alfreð í byrjun maí.

Um ræðir nýja stöðu innan félagsins sem felur í sér að auka þekkingu og skilning almennings á málefnum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu með kynningu og miðlun efnis. Einnig tekur Pétur við ábyrgð og umsjón með íslenska UNESCO-skóla staðarnetinu af Kristrúnu Maríu Heiðberg, sem leitt hefur verkefnið síðustu ár. Pétur mun hefja störf þann 1. Október næstkomandi.

Pétur Hjörvar Þorkelsson.

Starfað fyrir UNICEF frá 2018

Pétur mun í nýju hlutverki samþætta kynningu- og fræðslu Félags Sameinuðu þjóðanna með sérstaka áherslu í skóla og ungmennaverkefnum, en umsvif slíkra verkefna hefur stóraukist innan starfsemi félagsins síðustu misseri. Pétur hefur komið að fræðslu og skóla- og ungmennastarfi í yfir áratug og kemur því með mikla þekkingu til félagsins. Hann er menntaður mannfræðingur frá Há­skóla Íslands og með M.Ed. gráðu í Menntunarfræðum og margbreytileika, með veigamikla þekkingu á Sameinuðu þjóðunum og fræðslu- þróunar- og skólastarfi. Hann hefur meðal annars starfað sem götukynnir hjá Landsnefnd UN Women, unnið á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og verið aðstoðarrannsakandi- og kennari við Háskóla Íslands.

Síðustu sex árin hefur hann starfað fyrir UNICEF, fyrst hjá íslensku landsnefndinni í fjögur ár sem sérfræðingur í réttindum og þátttöku barna þar sem hann leiddi starf réttindaskóla og þróun og rekstur ungmennaráðs UNICEF. Frá því í september 2022 hefur Pétur starfað á landsskrifstofu UNICEF í Naíróbí, Kenía, þar sem hann hefur unnið á sviði félags- og hegðunarbreytinga (e. Social and Behavioral Change) í tengslum við loftslagsmál og vatns- og hreinlætismál. Helstu verkefni sem hann vann á þeim sviðum sneru að þátttöku ungmenna í aðlögun að áhrifum hamfarahlýnunar, hagnýtum rannsóknum á mannlegri hegðun og hönnun verkefnis í kóleruforvörnum.